Trúnaðarmannanámskeiðin fara af stað á ný

Trúnaðarmannanámskeiðin halda áfram hjá Félagsmálaskóla alþýðu nú í haust. Í september og október verður kennt í 3. og 4. þrepi Trúnaðarmannanámskeiðs I en í nóvember heldur kennsla áfram í Trúnaðarmannanámskeiði II.

Meðal efnis í 3. þrepi eru upplýsingar um tryggingar í kjarasamningum og almannatryggingakerfinu. Farið verður yfir lög um vinnurétt og hvernig þau styðja kjarasamninga, einnig verður kynning á Vinnueftirlitinu og skyldum atvinnurekenda í vinnuvernd og trúnaðarmanna. Námskeiðið fer fram 21. – 23. september í BSRB-húsinu að Grettisgötu 89.

Í október verður svo kennt í 4. þrepi en meðal efnis á þeim hluta námsins er hvernig sjálfstraust einstaklinga hefur áhrif á samskipti. Nemendur kynnast áhrifum skorts á sjálfstraust og ýmsar birtingamyndir þess og leiðum til að efla sjálfstraustið og hvaða aðstæður geta haft áhrif á minnkandi sjálfstraust. Kennd verða helstu atriði sem hafa þarf í huga þegar tala á fyrir framan hóp og nemendur læra helstu atriði uppbyggingar á ritun ræðna.

Trúnaðarmannanámskeið II heldur svo áfram í nóvember þegar kennt verður á 6. þrepi. Þar er áherslan á samtalstækni og íhlutun ásamt skipulögðum vinnubrögðum.

Allar frekari upplýsingar og skráning fer fram á vef Félagsmálaskólans.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?