Námskeið trúnaðarmanna í gang aftur í haust

Trúnaðarmenn aðildarfélaga BSRB eru hvattir til að skrá sig sem fyrst á námskeið Félagsmálaskóla alþýðu.

Það styttist í haustið og þar með í að næstu námskeið fyrir trúnaðarmenn aðildarfélaga BSRB fari af stað hjá Félagsmálaskóla alþýðu. Fyrsti hluti trúnaðarmannanámsins verður kenndur dagana 23. og 24. september og því um að gera að skrá sig sem fyrst.

Hver hluti námsins er kenndur á 16 klukkustundum sem deilast á tvo daga. Þeir trúnaðarmenn sem ekki hafa setið námskeið Félagsmálaskóla alþýðu eru hvattir til að skrá sig í fyrsta hluta námsins. Þar verður farið yfir hlutverk stéttarfélaga, sambanda og heildarsamtaka á vinnumarkaði. Þá verðir fjallað um hlutverk trúnaðarmanna og hvernig þeir taki á umkvörtunarefnum á vinnustöðum.

Leitast verður við að svara eftirfarandi spurningum:

 • Hvert er hlutverk stéttarfélaga, sambanda og heildarsamtaka á vinnumarkaði?
 • Hvernig starfa stéttarfélögin, stjórnir þeirra og hvert er hlutverk félagsmanna?
 • Hvert er hlutverk trúnaðarmanns á vinnustað, hvað á hann að gera og hvað á hann ekki að gera?
 • Hvert er hlutverk trúnaðarmanna samkvæmt lögum og kjarasamningum?
 • Hvar getur trúnaðarmaður aflað sér upplýsinga um túlkanir kjarasamninga og önnur mál sem koma inn á hans borð?
 • Hvernig eiga trúnaðarmenn að taka á móti umkvörtunum og vinna úr þeim?

Fyrsti hluti trúnaðarmannanámsins fer fram í fundarsal BSRB við Grettisgötu 89 dagana 23. og 24. september.

Annar hluti í október

Í október er svo komið að öðrum hluta trúnaðarmannanámsins, nánar til tekið dagana 14. og 15. október. Þar verður farið yfir samskipti á vinnustað, mismunandi form framkomu ásamt einelti og viðbrögðum við því. Þá verður farið yfir starfsemi stéttarfélaga, kjarasamninga og réttindi félagsmanna.

 • Lögð er megináhersla á mikilvægi góðra samskipta á vinnustað, hvernig megi stuðla að góðum samskiptum.
 • Skoðuð er mismunandi framkoma, áhrif hennar á okkur og aðra.
 • Nemendur kynnast afleiðingum langvarandi slæmra samskipta, eineltis á vinnustað, hvernig bregðast eigi við og ábyrgð gerenda og atvinnurekenda.
 • Nemendur kynnast starfsemi stéttarfélagsins, réttindum félagsmanna Nemendur læra á innihald og uppbyggingu kjarasamninga og helstu túlkun á þeim.
 • Nemendur kynnast sjóðum félagsins og réttindum félagsmanna í þeim.

Annar hluti trúnaðarmannanámsins fer fram í fundarsal BSRB við Grettisgötu 89 dagana 14. og 15. október.

Þriðji hluti í lok október

Þriðji hluti trúnaðarmannanámsins fer fram í lok október. Þar verður farið yfir grunntölur launa og útreikninga á launaliðum. Fjallað er um mikilvægi launaseðla og hvernig lesa má úr þeim. Þá er farið yfir almannatryggingakerfið og uppbyggingu og hlutverk lífeyrissjóða.

 • Megináhersla er lögð á grunntölur launaliða og launaútreikninga samkvæmt gildandi kjarasamningum, uppbyggingu launaseðla og mikilvægi þess að varðveita þá.
 • Nemendur leysa verkefni tengdu efninu sem felst í að reikna út mánaðarlaun frá grunni ásamt frádráttarliðum.
 • Nemendur kynnast almannatryggingakerfinu. Réttindi þeim tengdum.
 • Einnig er farið í uppbyggingu lífeyrissjóða og hlutverk þeirra og samspil þessar tveggja kerfa.

Þriðji hluti trúnaðarmannanámsins fer fram í fundarsal BSRB við Grettisgötu 89 dagana 28. til 29. október.

Fjórði hlutinn í nóvember

Fjórði hluti trúnaðarmannanámsins, og sá síðasti sem kenndur verður á haustönn, er á dagskrá Félagsmálaskóla alþýðu í nóvember. Á námskeiðinu verður lögð áhersla á lög um vinnurétt og hvernig þau styðja kjarasamninga ásamt uppbyggingu íslensks vinnumarkaðar. Þá verður farið yfir helstu hagfræðihugtök og hvernig þau nýtast við gerð kjarasamninga.

 • Megináhersla er lögð á helstu hagfræðihugtök í daglegu lífi og í kjarasamningagerð, svo sem kaupmátt launa, mun á hlutfallslegri hækkun eða krónutöluhækkun.
 • Nemendur kynnast hvað þarf að hafa í huga við gerð kjarasamninga.
 • Megináhersla er lögð á lög um vinnurétt og hvernig þau styðja kjarasamninga og hvernig íslenskur vinnumarkaður er upp byggður.
 • Lögð er áhersla á rétt launamanna til dæmis til fæðingarorlofs, atvinnuleysistrygginga og ýmis þau réttindi í lögum og reglugerðum sem íslenskur vinnumarkaður byggir á.

Fjórði hluti trúnaðarmannanámsins fer fram í fundarsal BSRB við Grettisgötu 89 dagana 18. til 19. nóvember.

Gott að skrá sig sem fyrst

Nánari upplýsingar má nálgast á vef Félagsmálaskóla alþýðu. Þar er einnig hægt að skrá þátttöku á einstökum námskeiðum. Þeir sem eru þegar búnir að ákveða að sækja sér fræðslu fyrir trúnaðarmenn eru hvattir til að skrá sig sem fyrst.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?