Tryggja þarf fjármagn til reksturs fangelsa

Nýtt fangelsi á Hólmsheiði er ekki nýtt sem skildi þar sem ekki fæst fé til rekstrarins. (Mynd/Fjársýsla ríkisins)

Fangavarðafélag Íslands beinir því til Alþingis að hætta nú þegar niðurskurði í fangelsiskerfinu og að tryggja nægt fjármagn til reksturs og uppbyggingar sem nauðsynleg er eftir áralangan niðurskurð.

Í ályktun stjórnar Fangavarðafélag Íslands kemur fram að ekki hafi verið hægt að nýta nýja fangelsið á Hólmsheiði jafn vel og hægt væri þar sem fjárveitingar skorti til eðlilegs starfsmannahalds sem tryggi öryggi starfsmanna og skjólstæðinga þeirra.

Þar er jafnframt bent á að skjólstæðingahópur fangavarða hafi verið að þyngjast mjög mikið á undanförnum árum. Í þeirra hópi séu einstaklingar sem séu veikari en áður, bæði andlega og líkamlega. Þrátt fyrir aukið álag hafi fjárveitingar ekki verið auknar.

Þá er minnt á að niðurskurður á hverju ári frá árinu 2008 hafi gert það af verkum að aðbúnaður og tæki fangavarða séu orðin úr sér gengin og engin endurnýjun hafi átt sér stað. Þrátt fyrir þetta eigi enn að skera niður fé til reksturs fangelsa.

„Það á að vera öllum ljóst að það fyrirkomulag að fangavörður sé einn á vakt eins og tíðkast til dæmis á Kvíabryggju, uppfyllir ekki þær öryggiskröfur sem sjálfsagðar ættu að vera í nútíma fangelsum. Nýlegt dæmi um það gerðist þann 12. janúar síðastliðinn þegar fangavörður sem var einn á vakt varð alvarlega veikur og setti bæði fangavörðinn og fjölda fanga í hættu,“ segir í ályktun stjórnarinnar.

Því er beint til Alþingis að hætta tafarlaust niðurskurði fjárveitinga til málaflokksins og tryggja fjármagn til reksturs og uppbyggingar.

Lesa má ályktunina í heild sinni hér.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?