Tveir nýir starfsmenn hjá BSRB

Rakel Pálsdóttir og Fríða Rós Valdimarsdóttir

Fríða Rós Valdimarsdóttir hefur hafið störf sem sérfræðingur í fræðslumálum hjá BSRB – heildarsamtökum starfsfólks í almannaþjónustu. Fríða Rós hefur víðtæka reynslu af störfum tengdum fræðslu- og jafnréttismálum. Hún starfaði síðast hjá Eflingu þar sem hún hafði yfirumsjón með fræðslumálum. Áður vann hún hjá Jafnréttisstofu auk þess sem hún var um fjögurra ára skeið formaður Kvenréttindafélags Íslands og er ein af stofnendum Bríetar, félags ungra femínista.

Hún stundaði nám í mann- og kynjafræði við Háskóla Íslands og fólksflutningafræði (e. Migration Studies) við Sussex University.

Rakel Pálsdóttir hefur tekið tímabundið við stöðu samskiptastjóra BSRB. Rakel hefur starfað við kynningarmál og almannatengsl í tæp 20 ár og hefur víðtæka reynslu á því sviði auk verkefna- og viðburðastjórnunar. Undanfarin þrjú ár starfaði hún hjá Eflingu þar sem hún hafði umsjón með kynningarmálum. Áður var hún forstöðumaður almannatengsla hjá Samtökum iðnaðarins og kynningarstjóri hjá Eddu útgáfu.

Rakel er með BA gráðu í þjóðfræði og mannfræði og meistaragráðu í mannauðsstjórnun frá Háskóla Íslands.

„Það er mjög ánægjulegt að fá Fríðu og Rakel til liðs við BSRB. Reynsla þeirra og þekking mun styrkja okkur í komandi verkefnum og eru þær boðnar hjartanlega velkomnar til starfa,“ segir Magnús Már Guðmundsson, framkvæmdarstjóri BSRB.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?