Tvö störf á skrifstofu BSRB laus til umsóknar

Tvö störf á skrifstofu BSRB eru laus til umsóknar.

BSRB hefur auglýst tvö laus störf á skrifstofu bandalagsins laus til umsóknar. Um er að ræða nýja stöðu hagfræðings og stöðu kynningarfulltrúa.

Hagfræðingurinn mun annast greiningar á velsæld og efnahagsmálum og safna saman upplýsingum um vinnumarkaðinn með það að markmiði að byggja undir stefnumótun bandalagsins. Gerð er krafa um háskólapróf í hagfræði og marktæka reynslu af hagfræðistörfum. Þá er óskað eftir greiningarhæfni og góðu valdi á úrvinnslu og framsetningu upplýsinga ásamt hæfni til að tjá sig í ræðu og riti. Umsóknarfrestur um stöðuna er til og með 20. febrúar. Nýr hagfræðingur mun starfa við hlið hagfræðings sem þegar starfar á skrifstofu BSRB.

Kynningarfulltrúi BSRB ber ábyrgð á kynningarmálum bandalagsins og stuðlar að auknum sýnileika þess í opinberri umræðu. Viðkomandi þarf einnig að halda utan um ritstjórn á útgefnu efni, skipuleggja viðburði og hafa umsjón með fjölmiðlasamskiptum. Þá veitir kynningarfulltrúi stjórnendum og fulltrúum aðildarfélaga ráðgjöf um miðlun upplýsinga og fjölmiðlasamskipti. Gerð er krafa um gott vald á íslensku og ritun texta, þekkingu á vefumsjón og samfélagsmiðlum og getu til að vinna hratt undir álagi. Umsóknarfrestur um stöðu kynningarfulltrúa er til og með 6. febrúar.

Sótt er um bæði störfin á alfred.is þar sem einnig má finna nánari upplýsingar. Umsóknum þarf að fylgja starfsferilsskrá og kynningarbréf þar sem gerð er grein fyrir áhuga á starfsemi BSRB og hvernig umsækjandinn uppfyllir þær hæfniskröfur sem gerðar eru.

Auglýsing um störf hjá BSRB


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?