Um 40 prósent kvenna orðið fyrir áreitni í starfi

Mikill munur er á tíðni áreitni eftir aldri. Myndin er frá Gallup.

Um það bil tvær af hverjum fimm konum hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni í starfi á lífsleiðinni samkvæmt könnun Gallup sem kynnt var á fundi Vinnueftirlits ríkisins um áreitni á vinnustöðum nýverið.

Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar, sem gerð var dagana 8. til 17. nóvember 2017, hafa um það bil 40 prósent kvenna og rúmlega 10 prósent karla orðið fyrir kynferðislegri áreitni á vinnustöðum á einhverjum tímapunkti.

Mikill munur var á tíðni áreitni eftir aldri. Þannig hefur rúmlega helmingur kvenna, um 55 prósent, á aldrinum 18 til 25 ára orðið fyrir áreitni í starfi og ríflega 20 prósent karla. Hlutfallið fer svo lækkandi eftir því sem þátttakendur í könnuninni urðu eldri. Nánar má sjá mismuninn á svörum fólks eftir aldri á meðfylgjandi mynd.

Á fundinum var velt upp þeirri spurningu hvort þetta skýrðist á einhvern hátt af því að það fenni yfir minningar um kynferðislega áreitni eftir því sem tíminn líði.

Þegar spurt var hvort fólk hafi orðið fyrir kynferðislegri áreitni í starfi á síðustu 12 mánuðum og svöruðu þá 5,3 prósent játandi. Þá sögðust sex prósent ekki viss og 88,7 prósent sögðust örugglega ekki hafa orðið fyrir slíkri áreitni.

Í könnuninni var kynferðisleg áreitni skilgreind sem hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg. Alls voru 1.362 af landinu öllu, 18 ára og eldri í Viðhorfahópi Gallup í úrtakinu. Svarhlutfall var 57,3 prósent.

Skrifað undir viljayfirlýsingu

Á fundi Vinnueftirlitsins þar sem niðurstöður könnunar Gallup voru kynntar skrifaði Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, undir viljayfirlýsingu um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum eins og bæði ráðherrar og fjöldi annarra forsvarsmanna fyrirtækja, stofnana og félagasamtaka.

BSRB hvetur forsvarsmenn fyrirtækja, stofnana og félagasamtaka sem ekki hafa skrifað undir yfirlýsingu Vinnueftirlitsins að gera það. Hægt er að skrifa undir rafrænt á vef eftirlitsins.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?