Um 85 prósent vilja meira fé til Landspítalans

Afgerandi meirihluti vill auka fjárframlög til reksturs Landspítalans.

Yfirgnæfandi meirihluti landsmanna, um 85 prósent, vilja að stjórnvöld verji meira fé til Landspítalans en gert er í dag. Þetta sýnir könnun Prósents sem Fréttablaðið birtir í dag.

Alls sögðust 57 prósent þátttakenda í könnuninni vilja að miklu meira fé verði varið til reksturs spítalans en 28 vilja að aðeins meira fé sé varið í reksturinn. Um 13 prósent vilja ekki breytingar og samtals um tvö prósent vilja að stjórnvöld verji aðeins eða miklu minna fé í reksturinn.

„Til þess að spítalinn geti gegnt sínum verkefnum, þá þarf meira fé,“ segir Páll Matthíasson forstjóri Landsspítalans í samtali við Fréttablaðið. Hann segir að niðurstöðurnar séu traustsyfirlýsing frá almenningi við starfsfólk Landspítalans. „Þarna kemur fram skýr vilji þjóðarinnar. Við finnum það nú og til framtíðar að fjármagna þurfi verkefnið með fullnægjandi hætti.“

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir þessar niðurstöður sýna stuðning landsmanna við opinbert heilbrigðiskerfi, í viðtali við blaðið. „Þetta endurspeglar það sem að áður hefur komið fram. Það er eindreginn stuðningur landsmanna við opinbert heilbrigðiskerfi og sterkan Landspítala. Þetta er eindregið ákall um að haldið verði áfram á þeirri braut að byggja upp þessa mikilvægu þjónustu.“

Fréttablaðið segir frá því að almennt séu konur hlynntari auknum fjárveitingum til reksturs Landspítalans en karlar. Þannig vilja 64 prósent kvenna verja miklu meira fé til rekstursins samanborið við um 50 prósent karla. Lítill sem enginn munur er á afstöðu fólks eftir búsetu eða menntun. Þegar svörin eru skoðuð eftir launum þeirra sem svara sést að fólk með 800 þúsund krónur eða meira í mánaðarlaun er líklegra til að vilja halda fjárframlögunum óbreyttum en fólk með lægri tekjur.

Meirihluti stuðningsmanna allra stjórnmálaflokka vill að meira fé verði varið til reksturs Landspítalans. Stuðningsmenn Sjálfstæðisflokk skera sig þó úr í því að 52 prósent þeirra vilja að fjárframlögin hækki en 42 prósent þeirra vilja að þau verði óbreytt.

Könnunin var gerð dagana 17. til 23. ágúst í könnunarvagni Prósents, svarhlutfall var 52 prósent og 1.251 tók afstöðu til spurningarinnar.

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?