Burt með umönnunarbilið

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSBR

Nú styttist í sveitarstjórnarkosningar og eru kjósendur að gera upp hug sinn hvaða framboð fær þeirra atkvæði. Sveitarfélög sinna dýrmætri almannaþjónustu og eitt stærsta verkefni þeirra er umönnun og menntun barna.

Samkvæmt niðurstöðum nýrrar skýrslu BSRB eru börn á Íslandi að meðaltali 17,5 mánaða gömul þegar þau komast inn á leikskóla. Meðaltalið endurspeglar þó ekki raunveruleika barnafjölskyldna um landið allt því mjög mismunandi er á milli sveitarfélaga hvenær leikskólapláss býðst, eða allt frá 9 mánaða til tveggja ára. Þannig kemst meirihluti barna að eftir 18 mánaða aldur. Þótt umönnunarbilið hafi minnkað undanfarin ár er ljóst að enn líður of mikill tími frá fæðingarorlofi og þar til barn fær pláss á leikskóla.

Um er að ræða risastórt vinnumarkaðsmál, kjaramál og jafnréttismál: Núverandi skipan leikskólamála takmarkar möguleika foreldra til þátttöku á vinnumarkaði að loknu fæðingarorlofi. Umönnunarbilið hefur neikvæð áhrif á jafnrétti kynjanna þar sem konur eru líklegri til að minnka við sig vinnu en karlar eða lengja fæðingarorlof. Þessi staða festir í sessi hefðbundnar (og úreltar) hugmyndir um umönnunarhlutverk kvenna því þær axla almennt meginábyrgð á bilinu með tilheyrandi launalækkun eða launatapi. Það stuðlar að launamun kynjanna. Bilið veldur barnafjölskyldum um allt land miklum vandræðum og oft tekjumissi þar sem margar hverjar þurfa að hagræða vinnu í marga mánuði, greiða mun hærri gjöld fyrir þjónustu dagforeldra ef sú þjónusta er á annað borð fyrir hendi eða treysta á ættingja til að annast barnið þar til leikskólapláss fæst.

Foreldrar ungra barna þekkja því vel þennan vanda. Það gera líka ömmur og afar og aðrir sem reyna að hjálpa til með því að passa börnin og bjarga því sem bjargað verður. Þetta er stór hópur kjósenda.

Í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga gerum við hjá BSRB þá kröfu að stjórnvöld grípi til aðgerða til að öllum börnum verði tryggð leikskólapláss að loknu fæðingarorlofi foreldra sama hvar þau búa á landinu. Og veiti þannig barnafjölskyldum hér á landi sambærilegan stuðning og gert er á hinum Norðurlöndunum.

 

Höfundur: Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB
Grein birtist fyrst í Fréttablaðinu 6. maí 2022.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?