Húsnæðisöryggi eigi að vera meginmarkmið Grænbókar

BSRB fagnar því að móta eigi stefnu í húsnæðis- og mannvirkjamálum en telur að skýra þurfi betur meginmarkið og að húsnæðisöryggi eigi að vera lykilatriði.  

Þetta kemur fram í umsögn bandalagsins um mál stjórnvalda í samráðsgátt.

Megin athugasemdir BSRB við Grænbókina eru eftirfarandi:

  • Nauðsynlegt sé að skýra betur meginmarkmið húsnæðisstefnunnar
  • Húsnæðisöryggi verði að vera meginmarkmið húsnæðisstefnu stjórnvalda
  • BSRB undirstrikar mikilvægi þess að samþætta vinnu ríkis og sveitarfélaga á sviði húsnæðismála í anda rammasamkomulags ríkis og sveitarfélaga. Þess vegna þarf að gera samkomulag við stærstu sveitarfélögin á þeim grunni sem allra fyrst.
  • BSRB ítrekar gagnrýni á verulegri lækkun fjárframlaga samkvæmt núgildandi fjármálaáætlun. Nauðsynlegt er að hækka stofnframlög verulega til að tryggja að 1.000 almennar íbúðir verði byggðar árlega til samræmis við markmið rammasamkomulags ríkis og sveitarfélaga um að 30% nýrra íbúða verði á viðráðanlegu verði.
  • Markvissari húsnæðisstuðnings sé þörf fyrir þau sem standa höllum fæti á húsnæðismarkaði. BSRB leggur áherslu á að byrði húsnæðiskostnaðar verði ekki umfram 25% af ráðstöfunartekjum. Hækka þarf húsnæðisstuðning til að mæta þróun leiguverðs og efla vaxtabótakerfið verulega. BSRB telur ekki tímabært að sameina húsnæðisstuðning við leigjendur og eigendur í eitt kerfi á meðan mikil óvissa ríkir á húsnæðismarkaði og vaxtastig er hátt.
  • BSRB leggur ríka áherslu á að allt kapp verði lagt á aukna hlutdeild, og tryggjan fjárhagslegan grundvöll, lághagnaðardrifinna leigufélaga á leigumarkaði.
  • BSRB krefst þess að stjórnvöld standi við gefin loforð um bætta réttarstöðu leigjenda og hömlur á hækkun leiguverðs.
  • Mikilvægt sé að bæta gagnaöflun og aðgengi að greinargóðum upplýsingum um húsnæðisöryggi fólks. BSRB leggur til að gagnaöflun Hagstofunnar taki mið af mælikvörðum OECD um húsnæðisöryggi.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hagfræðingur BSRB ritar umsögnina fyrir hönd BSRB.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?