Undrast afstöðu Kópavogsbæjar

„Afstaða Kópavogsbæjar eins og hún birtist í þessu máli er ekki til þess að hvetja fólk til að sækja rétt sinn,“ segir Elín Björg Jónsdóttir formaður BSRB um þá ákvörðun Kópavogsbæjar að  lækka laun karlmanns sem hafði hærri laun en kona í sama starfi. Kærunefnd jafnréttismála úrskurðaði launamun karlsins og konunnar ólögmætan í október í fyrra og brást Kópavogsbær við úrskurðinum með því að lækka launa karlmannsins í stað þess að hækka laun konunnar.

„Haldi bærinn þessari afstöðu sinni til streitu tel ég víst að konur hugsi sig tvisvar um áður en þær sækja rétt sinn til jafnra launa. Með þessu fordæmi er Kópavogsbær að koma þeim skilaboðum áleiðis að sæki konur rétt sinn til jafnra launa og úrskurður fellur þeim í vil, þá verði brugðist við því með því að lækka launa karla í sambærilegu starfi. Það er ekki hvetjandi til að sækja rétt sinn til jafnra launa ef ávinningurinn er aðeins sá að aðrir lækka í launum,“ segir Elín Björg sem furðar sig á afstöðu Kópavogsbæjar til jafnréttislöggjafarinnar.

„Og nú hefur bæjarstjóri boðað að þetta kunni að hafa áhrif á launakjör fleiri starfsmanna hjá bænum, og þá á hann væntanlega við til lækkunar launa. Tilgangur laga um jafna stöðu kvenna og karla er ekki að lækka laun karla. Og það er raunar skýrt tekið fram í úrskurði kærunefndar í þessu tiltekna máli að ekki dugi að lækka laun karlmannsins líkt og Kópavogsbær lagði til þegar málið var tekið fyrir. Gjörðir Kópavogsbæjar ganga þannig þvert gegn úrskurði kærunefndar jafnréttismála og anda jafnréttislöggjafarinnar.“


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?