Vantar 25 þúsund líffæragjafa á skrá

Um 25 þúsund Íslendingar hafa skráð sig sem líffæragjafa í gagnagrunn landlæknis en um 25 þúsund vantar til viðbótar ef vel á að vera. Hægt er að skrá sig sem líffæragjafa með einföldum hætti á vef landlæknisembættisins.

Opnað var fyrir skráningu á vef landlæknis í lok október 2014. Um 7.000 manns skráðu sig fyrir lok árs 2014, um 14.000 á árinu 2015 en einungis um 4.000 í fyrra. Skortur er á líffærum til ígræðslu bæði hér á landi og í heiminum almennt og því mikilvægt að sem flestir skrái sig sem líffæragjafa.

Í Fréttablaðinu í dag segir Tómas Guðbjartsson, prófessor og hjartaskurðlæknir á Landspítalanum að óskastaðan væri að um 100 þúsund væru skráðir líffæragjafar. Eftirspurn eftir líffæraígræðslum hefur aukist jafnt og þétt síðustu ár og nú er svo komið að á hverju ári þarfnast 25-30 sjúklingar hér á landi líffæraígræðslu.

Ekki er hægt að nýta líffæri nema úr hluta þeirra sem eru skráðir líffæragjafar, en líffæri úr einum látnum líffæragjafa geta bjargað lífi nokkurra einstaklinga.

Mikilvægt að skrá sig

Heilbrigðismálin eru einn af hornsteinum samfélagsins og mikilvægt að allir sem geta hjálpist að við að bæta stöðu þeirra sem þurfa á líffæraígræðslu að halda. Vonandi munu sem flestir skrá sig sem líffæragjafa á vef landlæknis. Það er afar einfalt ferli fyrir þá sem nota einhverskonar rafræn skilríki, til dæmis þau sömu og notuð eru þegar farið er inn á rafrænt skattframtal.

Kynntu þér hvernig þú getur komist í hóp líffæragjafa með einföldum hætti á vef landlæknisembættisins.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?