Varaformaður BSRB á 1. maí

„Við stöndum nú á tímamótum þar sem teknar verða afdrifaríkar ákvarðanir um afdrif þjóðarinnar. Nú standa yfir einhver mestu og illvígustu átök á vinnumarkaði sem sést hafa í áratugi. Fullkomið vantraust og trúnaðarbrestur er á milli aðila. Það er tími til kominn að launafólk sýni mátt sinn og megin,“ sagði Árni Stefán Jónsson, varaformaður BSRB, í 1. maí ræðu sinni á Ingólfstorgi í Reykjavík í dag.

Árni Stefán fjallaði um samhjálparhugsjónina og velferðarþjóðfélagið sem á undir högg að sækja.

„Það sem einkennir hið svokallaða Norræna velferðarmódel er meðal annars sterk velferðarkerfi. Velferðarkerfi sem byggir á samtryggingahugsjón, þar sem við hjálpumst að. Þeir sem þurfa á aðstoð að halda, fái hana, án tillits til efnahags.  Menntun sé boðleg fyrir alla, óháð efnahag. Heilbrigðisþjónusta sé fyrir alla, óháð efnahag. Samfélagslegt uppeldi barna okkar sé vel útfært, fyrir alla, óháð efnahag. Þessi samtryggingarhugsjón á Norðurlöndum hefur skilað sér í sterkari og stöðugri samfélögum,“ sagði Árni Stefán. Varaformaður BSRB fjallaði einnig um ábyrgð stjórnmálamanna og atvinnurekenda sem með gjörðum sínum væru að skapa enn meiri ójöfnuð.

„Þegar hlustað er á forráðamenn ríkisstjórnarinnar ræða um efnahags- og kjaramál, er bjart framundan.  A og annar stjórnarflokkurinn stærir sig meira að segja af því að það sé ekki nema eðlilegt að almenningur geri kröfur um hækkun launa, því svigrúmið sé fyrir hendi. En þegar til kastanna kemur er svarið: Nei!“ sagði Árni Stefán og bætti við:

„Þeir lækka veiðigjöldin svo stóreignamenn megi græða meira. Þeir hækka matarskattinn svo barnafjölskyldur fái að greiða meira. Þeir þrengja að lánasjóðnum svo fátæku námsmennirnir geti haft það verra. Þeir hækka komugjöldin þannig að sjúkir fái að blæða. Dreifing auðs með jöfnuði að leiðarljósi er hugmyndafræði sem við virðumst vera að fjarlægjast. Þróun samfélags á að snúast um samvinnu – samtal – virðingu og velferð.“

 

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?