Varða hlýtur styrk úr Jafnréttissjóði

Á myndinni eru frá vinstri: Margrét Einarsdóttir, sérfræðingur hjá Vörðu, Kolbeinn H. Stefánsson, dósent við HÍ og í stjórn Vörðu, Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB og í stjórn Vörðu, Kristín Heba Gísladóttir, framkvæmdastjóri Vörðu, Drífa Snædal, forseti ASÍ og stjórnarformaður Vörðu og Adda Guðrún Gylfadóttir, rannsakandi hjá Vörðu.

Varða – rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins hefur hlotið styrk úr Jafnréttissjóði til að framkvæma rannsókn á upplifunum og reynslu ungra kvenna á aldrinum 16 til 24 ára af erlendum uppruna sem eru hvorki í námi né atvinnu.

Um er að ræða rannsóknarverkefni sem tengist megindlegri rannsókn Vörðu um stöðu ungmenna af erlendum uppruna sem standa utan vinnumarkaðar og náms sem hefur hlotið styrk úr Þróunarsjóði innflytjendamála. Fyrirliggjandi gögn benda til þess að ungar konur af erlendum uppruna séu líklegri til að stunda hvorki atvinnu né nám en aðrir félagshópar í íslensku samfélagi og því mikilvægt að skoða stöðu þeirra og upplifun nánar. Rannsóknin byggir á frásögnum um upplifanir ungra kvenna af erlendum uppruna í rýnihóp.

Megin markmiðið er að varpa ljósi á aðstæður og reynslu viðmælenda og ná fram upplýsingum um hvaða leiðir þær telja vera til staðar til að auka virkni og þátttöku á vinnumarkaði eða auknum stuðningi til náms.

Úthlutun úr Jafnréttissjóði Íslands fór fram við hátíðlega athöfn í Hörpu þann 18. júní 2021.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?