Varða hlýtur styrk úr Vísindasjóði Orkuveitu Reykjavíkur

Úthlutun styrkja fór fram við hátíðlega athöfn í húsakynnum OR 6. október.

Varða – rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins hefur hlotið styrk úr Vísindasjóði Orkuveitu Reykjavíkur, VOR til að framkvæma rannsókn á stöðu foreldra á Íslandi með tilliti til möguleika þeirra til að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf út frá skipulagi vinnu og skólastarfs. Verkefnið, sem ber heitið Samræming fjölskyldu- og atvinnulífs barnafjölskyldna á Íslandi: Byrði umönnunartímabils frá 12 mánaða til 12 ára, hlaut 8,5 milljóna króna styrk. Maya Staub, sérfræðingur hjá Vörðu og starfandi framkvæmdastjóri tók við styrknum við hátíðlega athöfn í húskynnum OR.

Nánar um verkefnið

Rannsóknir sýna að tækifæri fólks til að samræma atvinnu- og einkalíf hefur víðtæk áhrif meðal annars á líkamlega og andlega heilsu, ánægju og starfsafköst. Þrátt fyrir að litið sé til Íslands sem fyrirmyndar í jafnréttismálum þá er launamunur kynjanna staðreynd, konur vinna í mun meira mæli hlutastörf og þær bera enn megin þungann af heimili og umönnun barna. Erlendar rannsóknir sýna jafnframt að konur bera í meira mæli ábyrgð á umönnun barna vegna veikinda og skólafría. Í þeim löndum þar sem stefnumótun stjórnvalda miðar að því að vera fjölskylduvæn og stuðla að réttindum kvenna, dregur saman með konum og körlum hvað varðar þann tíma sem þau eyða í ólaunuð störf á heimilinu líkt og umönnun barna. Jafnframt hefur verið sýnt fram á að hækkun launa í hefðbundnum kvennastörfum jafnar ábyrgð þeirra kvenna og maka þeirra.

Í ljósi fyrri rannsókna er markmið verkefnisins að nálgast kynjajafnrétti á vinnumarkaði út frá umönnunarbyrði barna og skoða með heildrænum hætti hvort uppbygging innviða samfélagsins þegar litið er til skólakerfisins samræmist réttindum foreldra til orlofs og veikindaréttar vegna barna.

49 styrkumsóknir

Í ár bárust sjóðnum 49 styrkumsóknir og hlutu þarf af 17 verkefni styrk. Af þessum 17 eru 9 námsstyrkir sem fara í að fjármagna meistara og doktorsnema og 8 eru verkefnastyrkir. Kynjaskipting er nokkuð jöfn en 9 verkefnanna er stýrt af konum og 8 af körlum. Nánari upplýsingar um þau verkefni sem hlutu styrk má finna á heimasíðu OR.

Varða – Rannsóknastofnun vinnumarkaðarins var stofnuð í maí 2020 af Alþýðusambandi Íslands og BSRB og sinnir fjölbreyttum rannsóknum er varða lífskjör fólks í víðu samhengi auk þess að sinna rannsóknaþjónustu fyrir aðildarfélög ASÍ og BSRB.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?