Varða kynnir rannsóknir um stöðu ungmenna

Fjölgað hefur í hópi ungmenna sem hvorki stunda nám né vinnu.

Niðurstöður tveggja rannsókna Vörðu – rannsóknarstofnunar vinnumarkaðarins, á stöðu ungmenna sem stunda hvorki nám né atvinnu verða kynntar á netfundi Vörðu næstkomandi miðvikudag.

Undanfarna áratugi hefur dregið úr atvinnuþátttöku ungmenna víðast hvar í aðildarríkum OECD og samhliða orðið fjölgun í hópi ungmenna sem stunda hvorki nám né atvinnu (e. not in employment, education or training, NEET). Samskonar þróun hefur átt sér stað á Íslandi og hefur Varða - rannsóknastofnun vinnumarkaðarins unnið tvær rannsóknir á þessum hópi.

Á netfundinum, sem hefst klukkan 12:30 miðvikudaginn 27. október, mun Adda Guðrún Gylfadóttir, rannsakandi hjá Vörðu, kynna niðurstöðu rannsóknanna og fjalla um úrbætur í málefnum ungmenna í þessari stöðu. Annars vegar er um að ræða greiningu á gögnum frá Hagstofu Íslands á umfangi og eðli NEET-hópsins sem var styrkt af Þróunarsjóði innflytjendamála. Hins vegar mun Adda Guðrún kynna niðurstöður eigindlegrar rannsóknar á stöðu ungra kvenna af erlendum uppruna sem eru utan vinnumarkaðar og skóla. Sú rannsókn var styrkt af Jafnréttissjóði Íslands.

Niðurstöður rannsóknar Vörðu sýna að fjöldi óvirkra ungmenna er nátengdur stöðunni á vinnumarkaði. Einnig hafa þættir eins og kyn, aldur, menntunarstig, félags- og efnahagsleg staða foreldra og fjölskyldugerð áhrif á hvort ungmenni eru líklegt til að tilheyra NEET-hópnum eða ekki. Rýnihópaviðtöl við konur af erlendum uppruna leiddi í ljós að þær búa við margþættar hindranir í íslensku samfélagi.

Fundurinn fer fram miðvikudaginn 27. október kl. 12:30 í gegnum Zoom og er öllum opinn. Boðið er upp á túlkun yfir á ensku og til að nýta hana þarf að smella á lítinn hnött sem birtist í stikunni neðst á skjánum og velja túlkun. Hægt er að velja „mute original sound“ til að heyra eingöngu í túlknum. Kristín Heba Gísladóttir, framkvæmdastjóri Vörðu verður fundarstjóri.

BSRB og ASÍ stofnuðu Vörðu - rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins í október 2019. Stofnunin hefur það að markmiði að efla rannsóknir á sviði vinnumarkaðar, félags- og efnahagsmála og er ætlað að bæta þekkingu á lífsskilyrðum launafólks og brúa bilið milli fræðasamfélagsins og verkalýðshreyfingarinnar og dýpka umræðuna um kaup og kjör.

Smellið hér til að taka þátt í fundi Vörðu.

Nánari upplýsingar má finna á Facebook-viðburði fundarins.

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?