Vefur BSRB um styttingu vinnuvikunnar verðlaunaður

Vefurinn styttri.is var besta frétta- og upplýsingavefur ársins 2021.

Upplýsingavefur BSRB um styttingu vinnuvikunnar, styttri.is, var sigurvegarinn í flokknum besti íslenski frétta- og upplýsingavefurinn á Íslensku vefverðlaununum 2021 sem afhent voru á föstudaginn.

Það var Hugsmiðjan sem hannaði vefinn fyrir BSRB, en markmiðið var að setja fram á skýran og hnitmiðaðan hátt allt um styttingu vinnuvikunnar fyrir dagvinnufólk. Vefurinn nýttist gríðarlega vel á meðan innleiðingarferli var í gangi á vinnustöðum hjá ríki og sveitarfélögum fyrir áramót, en styttingin á stöðum þar sem unnið er í dagvinnu tók gildi um áramótin.

Í umsögn dómnefndar um styttri.is segir meðal annars:

Kraftmikill efnis- og fréttavefur sem gefur sterkan tón til notandans. Vefurinn er áhrifamikill og dálítið óhefðbundinn en nær algjörlega að koma skilaboðunum á framfæri. Notandinn á auðvelt með að rata um vefinn enda er framsetning efnisins skýr og greinileg. Mjög áhugaverður vefur með nýstárlegri framsetningu.

Við hjá BSRB erum auðvitað í skýjunum með þessa viðurkenningu og þökkum Hugsmiðjunni kærlega fyrir samstarfið og þann metnað og hæfileika sem félagar okkar þar sýndu við vinnu á vefnum. Aðsókn á vefinn var mjög mikil á meðan innleiðingarferlinu stóð og afskaplega gott til þess að vita að mikill fjöldi okkar félaga, og eflaust annarra, sótti sér ýmiskonar upplýsingar á vefinn.

Innleiðingu á styttingu vinnuvikunnar í dagvinnu er nú lokið, en vefurinn styttri.is fær að lifa áfram til að auðvelda þeim sem gera ætla breytingar á fyrirkomulaginu á sínum vinnustað á næstunni auðveldara fyrir að nálgast upplýsingar.

Innleiðing á vaktavinnustöðum er nú í gangi og á henni að ljúka þann 1. maí næstkomandi. Allar upplýsingar um styttingu í vaktavinnu má finna á vefnum betrivinnutimi.is, sem er sameiginlegur upplýsingavefur launafólks og launagreiðenda.

Skoðaðu vefinn styttri.is með því að smella hér.

Hægt er að horfa á útsendingu frá afhendingu Íslensku vefverðlaunanna 2021 á vef Vísis.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?