Vel heppnaður vinnudagur Réttindanefndar BSRB

Sigríður Hulda Jónsdóttir frá SHJ ráðgjöf fór yfir ýmis atriði sem geta auðveldað starfsfólki að sinna félagsmönnum betur.

Réttindanefnd BSRB stóð fyrir vel heppnuðum vinnudegi á miðvikudaginn þar sem starfsmenn aðildarfélaga BSRB gátu sótt sér ýmsan fróðleik um réttindamál og þjónustu við félagsmenn. Vel á fjórða tug sótti fundinn.

Sigríður Hulda Jónsdóttir, náms- og starfsráðgjafi frá SHJ ráðgjöf fjallaði um hvernig stéttarfélögin og starfsmenn þeirra geta bætt þjónustuna við félagsmenn með því að auka hæfni starfsmanna. Hún lagði meðal annars fyrir stutt verkefni fyrir þátttakendur sem þeir unnu í litlum hópum.

Eftir námskeið Sigríðar Huldu fjallaði Hrannar Már Gunnarsson, lögfræðingur BSRB um ónæði utan vinnutíma og hvíldartímabrot. Þessi málefni hafa verið að komast sífellt meira í kastljósið enda algengt að starfsmenn séu því sem næst sítengdir vinnustaðnum eftir að vinnutíma líkur í gegnum tölvupóst og símtöl.

Að lokum fjallaði Dagný Aradóttir Pind, lögfræðingur BSRB, um rannsóknir á vaktavinnu og vinnutíma, í tengslum við ráðstefnu sem hún og fulltrúar nokkurra aðildarfélaga BSRB sóttu nýverið þar sem fjallað var um þessi mál.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?