Vel sóttur fræðslufundur um lífeyrismál

Þórey S. Þórðardóttir framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða kynnir skipulag og uppbyggingu lífeyriskerfisins og lífeyrisréttinda.

BSRB bauð formönnum, stjórnarfólki og starfsfólki aðildarfélaga bandalagsins til fræðslufundar um lífeyrismál í dag.

Lífeyrismál hafa verið til umræðu í Þjóðhagsráði og stjórnvöld hafa lýst því yfir að vilji þeirra standi til að boða til heildarendurskoðunar lífeyrismála í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins. Enn fremur voru gerðar umfangsmiklar breytingar á skipan lífeyrismála á opinberum vinnumarkaði árið 2017 og lífslíkur félagsfólks okkar og sjóðfélaga í LSR og Brú er að aukast. Fundurinn var haldinn til að undirbúa frekari stefnumótun BSRB á sviði lífeyrismála og veita heildaryfirsýn yfir helstu þætti sem varða ávinnslu og réttindi félagsfólks til lífeyris.

Á fundinum kynnti Þórey S. Þórðardóttir framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða skipulag og uppbyggingu lífeyriskerfisins og lífeyrisréttinda.

Vala Rebekka Þorsteinsdóttir, lögfræðingur hjá LSR fjallaði um breytingar á skipan lífeyrismála á opinberum vinnumarkaði og Bjarni Guðmundsson sjálfstætt starfandi tryggingastærðfræðingur ræddi almenn skilyrði lífeyrissjóðsrekstrar og tryggingafræðilegar athuganir, lágmarksiðgjald og lágmarkstryggingavernd.

Þá flutti Ragnheiður Helga Haraldsdóttir sviðstjóri Áhættustýringarsviðs Brúar lífeyrissjóðs erindi um breytingar á lífslíkum Íslendinga sem og þróun örorku og áhrif þess á lífeyrisréttindi og Ásta Ásgeirsdóttir hagfræðingur hjá Landssamtökum lífeyrissjóða gerði grein fyrir nýlegum breytingum á danska lífeyriskerfinu sem tryggir snemmtöku lífeyris vegna starfa sem slíta fólki út fyrir aldur fram.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB stýrði fundi.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?