Verk að vinna fyrir nýja ríkisstjórn

Nýrrar ríkisstjórnar bíða mörg erfið verkefni og rétt er að óska henni velfarnaðar í störfum sínum. Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar gefur visst tilefni til bjartsýni en auðvitað er það svo að það eru verkin sem skipta máli.

Það er ánægjulegt að ný ríkisstjórn hafi uppi góð áform í jafnréttismálum. Í stefnuyfirlýsingunni segir að til standi að vinna að jafnrétti á vinnumarkaði, meðal annars með því að skylda fyrirtæki með fleiri en 25 starfsmenn til að taka upp jafnlaunavottun.

Þá ætlar ný ríkisstjórn einnig að hækka hámarksgreiðslur til foreldra í fæðingarorlofi, sem er mikilvægt bæði fyrir börnin og til að stuðla að jafnrétti á vinnumarkaði með því að hvetja feður til að taka fæðingarorlof til jafns við mæður. Þá er einnig jákvætt að vinna eigi að því að tryggja börnum leikskóla- eða dagvist að loknu fæðingarorlofi.

Þessi tvö atriði eru meðal tillagna sem starfshópur um endurskoðun fæðingarorlofsins lagði til í skýrslu sinni. Það er mikilvægt að aðrar tillögur starfshópsins verði einnig hluti af áformum nýrrar ríkisstjórnar. Starfshópurinn lagði til að þak á greiðslur til foreldra yrði hækkað, eins og stjórnin áformar að gera, en einnig að orlofið verði lengt í 12 mánuði og að greiðslur undir 300 þúsund krónum verði ekki skertar.

Það síðastnefnda er afar mikilvægt fyrir tekjulægri hópa sem munar gríðarlega um 20% launaskerðingu í fæðingarorlofi. BSRB mun beita sér fyrir því að nýr félagsmálaráðherra geri þessar tillögur að sínum.

Heilbrigðiskerfið verði byggt upp til framtíðar

Þjóðin hefur kallað eftir því að heilbrigðiskerfið verði stóreflt án tafar svo það er fagnaðarefni að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar séu heilbrigðismálin sögð í forgangi. Þar segir jafnframt að áherslan verði á að allir hafi aðgengi að góðri heilbrigðisþjónustu óháð efnahag og búsetu, sem rímar vel við stefnu BSRB í þessum málaflokki.

Þegar ætlunin er að byggja upp heilbrigðiskerfið verða stjórnvöld að horfa til langrar framtíðar. Þess vegna er mikilvægt að láta ekki undan þeim sem hafa áhuga á því að auka enn á einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu.

Rannsóknir sýna að rúmlega fjórir af hverjum fimm Íslendingum vilja að heilbrigðiskerfið sé rekið að mestu leyti af hinu opinbera. Þá er ljóst að einkavæðing gerir stjórnvöldum erfitt fyrir að móta stefnu og framfylgja henni, öllum til heilla.

Það er því óskandi að ný ríkisstjórn fari í uppbyggingu á heilbrigðiskerfinu á réttum forsendum og bæti og byggi upp það kerfi sem þegar er til staðar í stað þess að færa reksturinn í hendur einkaaðila. Allra augu munu hvíla á nýrri ríkisstjórn og mikilvægt að hún standist prófið.

Einkavæðing kallar á skólagjöld

Mikið hefur verið kallað eftir uppbyggingu menntarkerfisins á öllum stigum undanfarin ár og því fagnaðarefni að ný ríkisstjórn sé með stórhuga áform á því sviði.

Þó er einkennilegt að lesa það í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að jafnræði nemenda og valfrelsi þeirra verði tryggt með því meðal annars að styrkja fjölbreytt rekstrarform í menntakerfinu. Þar er rétt að gjalda varhug við enda hætta á því að einkaaðilar sem starfa á þessu sviði innheimti skólagjöld sem sannarlega stuðla ekki að jafnræði. Það er grunnstefið í stefnu BSRB í menntamálum að jafnrétti til náms sé tryggt, óháð aldri eða öðrum aðstæðum.

Skattkerfið notað til tekjujöfnunar

Í stefnuyfirlýsingunni er rætt um stöðugleika, en eins og hjá fráfarandi ríkisstjórn er hann þröngt skilgreindur. Ríkisstjórnin virðist ætla að leggja áherslu á að viðhalda efnahagslegum stöðugleika án þess að átta sig á mikilvægi þess að huga jafnframt að félagslegum stöðugleika.

Stjórnvöld áforma að styrkja skattkerfið sem tekjuöflunartæki en líta framhjá mikilvægi skattkerfisins sem tekjujöfnunartækis.

BSRB hefur mótað sér þá stefnu að skattkerfið sé nýtt sem jöfnunartæki, skattkerfið og velferðarkerfið séu rekin með því hugarfari að fólk greiði inn eftir efnum og taki út eftir þörfum. Þannig beri þeir sem betur eru staddir þyngri byrðar en þeir sem verr eru staddir. Vonandi hafa ráðherrar í nýrri ríkisstjórn þetta í huga þegar þeir móta fjármálastefnu næstu ára.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?