Verk að vinna við að leiðrétta launamun

Niðurstöður árlegrar launakönnunar SFR stéttarfélags og Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar (St.Rv.) sýna að 15-16% óútskýrður munur er á launum opinberra starfsmanna í félögunum tveimur og kollega þeirra á almenna markaðinum, samkvæmt umfjöllun á vef SFR og á vef St.Rv.

„Þetta sýnir svart á hvítu að það er verk að vinna við að leiðrétta launamuninn,“ segir Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB. Hún bendir á að mikilvægur hluti af samkomulagi BSRB og annarra bandalaga opinberra starfsmanna við ríki og sveitarfélög sé að leiðrétta eigi þennan óútskýrða launamun með markvissri vinnu á næstu árum.

„Við höfum vitað af þessum launamun en það hefur gengið illa að jafna launakjörin milli opinbera markaðarins og hins almenna. Viðkvæðið hefur yfirleitt verið að ekki sé hægt að greiða sambærileg laun á opinbera markaðinum vegna ólíkra lífeyriskerfa. Nú er sá munur að hverfa og ríki og sveitarfélög hafa skuldbundið sig til að leggja fé í að leiðrétta laun opinberra starfsmanna. BSRB mun fylgja því fast eftir að staðið verði í einu og öllu við ákvæði samkomulagsins,“ segir Elín Björg.

Heildarlaun VR-félaga allt að 30% hærri

Samkvæmt launakönnuninni, sem unnin er af Gallup, eru heildarlaun VR félaga allt að 30% hærri en laun félaga í SFR og St.Rv. Heildarlaun félaga í VR eru að meðaltali um 597 þúsund á mánuði samanborið við 458 þúsund hjá félögum SFR og 483 þúsund hjá félögum í St.Rv.

Eftir að tekið hefur verið tillit til ýmissa málefnalegra þátta sem hafa áhrif á launin stendur eftir að félagsmenn í VR hafa 15% hærri laun en félagsmenn SFR og 16% hærri laun en félagsmenn St.Rv.

Konur launalausar eftir 17. nóvember

Launakönnunin varpar einnig ljósi á kynbundinn launamun. Munur á heildarlaunum karla og kvenna mælist nú 20% hjá SFR og 13% hjá félögum í St.Rv. Þegar aðeins er skoðaður sá munur sem ekki má skýra með þáttum sem hafa áhrif á launin, til dæmis vaktaálagi, starfsstétt, starfsaldurs, vinnutíma, aldurs, atvinnugreinar og mannaforráða situr eftir kynbundinn launamunur. Hann mælist 11,8% hjá félagsmönnum í SFR en 6,1% hjá félagsmönnum St.Rv. Munurinn er minni, eða um 4,1%, hjá þeim félögum St.Rv. sem starfa hjá Reykjavíkurborg.

Samkvæmt þessu má setja dæmið þannig upp að konur í St.Rv. vinni launalaust í alla 16 daga á ári, sem jafngildir því að þær séu launalausar frá 8. desember. Konur í SFR vinna samkvæmt þessu 31 launalausan dag á ári, sem jafngildir því að þær séu launalausar frá 17. nóvember.

Lestu meira um launakönnunina á vef SFR og á vef St.Rv.

Skoðaðu niðurstöður launakönnunarinnar í heild á vef SFR og á vef St.Rv.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?