Verkalýðshreyfingin verður að stuðla að breytingum

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB og stjórnarformaður NFS, sleit þingi NFS í Malmö í dag.

„Norræna verkalýðshreyfingin verður að hafa áhrif og stuðla að breytingum í samfélaginu, við eigum að vera öðrum fyrirmynd,“ sagði Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, þegar hún sleit þingi NFS, Norræna verkalýðssambandsins, í Malmö í Svíþjóð fyrr í dag.

Þar fór hún yfir þá miklu vinnu sem unnin var á þinginu og þau málefni sem voru þar helst í deiglunni. Yfirskrift þingsins var „Byggjum brýr“ og það reyndist lýsandi fyrir þau málefni sem þar voru til umræðu. Sonja, sem gegnir stöðu stjórnarformanns NFS, fjallaði meðal annars um samstarf norrænu verkalýðsfélaganna við kollega annarsstaðar í Evrópu og sagði mikilvægt að leggja áherslu á jafnrétti kynjanna og hæfilega langan vinnutíma.

„Það voru karlmenn sem áttu heimavinnandi eiginkonur sem lögðu grunninn að því að skipuleggja sólarhringinn þannig að við eyðum átta klukkustundum í vinnunni, eigum átta klukkustunda frítíma og sofum í átta klukkustundir. Við verðum að breyta þessu fyrirkomulagi hjá okkur og vera þannig fyrirmynd annarra,“ sagði Sonja, en BSRB og önnur norræn heildarsamtök hafa beitt sér fyrir styttingu vinnuvikunnar.

Þingið hefur einnig brýnt forystu verkalýðshreyfingarinnar til dáða þegar kemur að umhverfismálum, sagði Sonja. „Við munum axla ábyrgðina á því að skilja eftir grænan heim fyrir komandi kynslóðir,“ sagði hún.

Á þinginu var rætt um stöðu verkalýðshreyfingarinnar, styrk Norðurlandanna í Evrópusamstarfinu, félagsleg réttindi, framtíðarvinnumarkaðinn, breytt vinnuumhverfi, öfgahyggju, populisma, kjarasamninga og áframhaldandi velferð á Norðurlöndunum. Í þinginu fóru umræður fram í hópum og verður afrakstur þeirrar vinnu lagður fyrir stjórn NFS og verða henni leiðarljós í vinnu komandi ára.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?