Verkfallsaðgerðir á Keflavíkurflugvelli

Verkfallsaðgerðum félaga SFR stéttarfélags, Félags flugmálastarfsmanna (FFR) og Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) sem boðaðar höfðu verið snemma í morgun er lokið, en gripið var til þessara aðgerða til að undirstrika kröfur félaganna í sameiginlegum kjaraviðræðum við Isavia. Félögin hafa boðað fleiri  sambærilegar aðgerðir næstu vikur ef ekki semst.

Það voru félagsmenn SFR, FFR og LSS sem stóðu verkfallsvaktina í nótt við Keflavíkurflugvöll. Framan af morgni var tiltölulega rólegt en fljótlega upp úr klukkan sjö fóru farþegar að streyma að og biðraðir að myndast. Rétt áður en verkfallinu lauk klukkan níu voru biðraðir orðnar býsna langar og mikill fjöldi fólks samankominn í Leifsstöð.

Mikil samstaða er hjá starfsfólki Isavia um aðgerðirnar en verkfallsverðir mættu klukkan að verða þrjú í nótt í verkfallsmiðstöð félaganna sem staðsett var stutt frá flugstöðinni. Þar var farið yfir stöðuna og vestum dreift og að lokum var fólki deilt niður á mismunandi stöðvar, enda verkfallssvæðið stórt. 

Verkfallsverðir höfðu orð á því að þeir finndu fyrir miklum stuðningi frá öðrum starfshópum á vellinum og einn verkfallsvörðurinn sagði það gilda um allar stéttir, jafnvel flugmenn hefðu tekið ofan fyrir þeim um morguninn, eins og hann orðaði það. Farþegar voru einnig flestir þolinmóðir og sýndu aðgerðunum skilning, þó sannarlega væri tímasetningin óheppileg fyrir marga. Nokkrir úr hópi tæplega fimmtíu tónmenntakennara úr Tónskóla Sigursveins stóðu framarlega í einni biðröðinni, en hópurinn var að leggja af stað í náms- og skemmtiferð. Þó nokkur seinkun hafði orðið á fluginu þeirra sem þýddi einhverjar breytingar á dagskrá ferðarinnar. Þau sögðu það þó koma lítið að sök, þau styddu aðgerðirnar þrátt fyrir það. Ekki voru allir farþegar eins skilningsríkir en fulltrúi SFR rakst m.a. á tvo erlenda ferðamenn sem stóðu fremst í langri röð að öryggishliðinu. Þeir sögðust ekki skilja svona aðgerðir sem einungis bitnaði á saklausu fólki. En þeir höfðu misst af tengiflugi til Kanada og flugfélagið sýndi því lítinn skilning.

Allflestir voru þó sammála um að aðgerðirnar hefðu tekist vel og fólk hafi almennt sýnt þeim mikinn skilning. Næstu aðgerðir félaganna eru boðaðar milli kl. 04:00 og kl. 09:00 miðvikudaginn 23. apríl, ef ekki semst fyrir þann tíma.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?