Vinna hefst við íbúðir Bjargs á Akranesi

Vel viðraði til útiverka þegar fyrstu skóflustungurnar að íbúðakjarna á Akranesi voru teknar í gær.

Formenn BSRB og Alþýðusambands Íslands ásamt bæjarstjóra og bæjarfulltrúum Akraneskaupstaðar tóku í dag fyrstu skóflustungurnar að íbúðakjarna Bjargs íbúðafélags á Akranesi. Til stendur að reisa 33 nýjar leiguíbúðir við Asparskóga 12-16.

Þau Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri á Akranesi, og bæjarfulltrúar á Akranesi hófu verkið formlega með því að taka fyrstu skóflustungurnar. Strax að því loknu hófst undirbúningsvinna á reitnum.

Bjarg íbúðafélag reiknar með því að afhending íbúða til leigutaka verði í tvennu lagi, 1. júní og 1. júlí 2019. Þá hefur verið gert samkomulag við Akraneskaupstað um að bærinn fái til ráðstöfunar 25% íbúðanna að Asparskógum.

Modulus munu sjá um byggingu húsanna og arkitekt er Svava Björg Jónsdóttir.

Hagsýni, skynsemi og gæði eru höfð að leiðarljósi við hönnun íbúðanna til að halda leiguverði lágu og er þar m.a. horft til fermetrafjölda. Um verður að ræða 40,4 fermetra stúdíóíbúðir, 52 fermetra tveggja herbergja íbúðir, 77 fermetra þriggja herbergja íbúðir og 93 fermetra fjögurra herbergja íbúðir.

Reisa 1.400 íbúðir á fjórum árum

Bjarg íbúðafélag er nú þegar með um 240 íbúðir í byggingu og um 430 í hönnunarferli en þegar hafa verið veitt framlög til Bjargs vegna uppbyggingar á 668 íbúðum í Reykjavík, Hafnarfirði, Akranesi, Akureyri, Þorlákshöfn og Sandgerði. Þá hefur Bjarg átt í viðræðum við fleiri sveitarfélög um uppbyggingu en félagið stefnir á uppbyggingu um 1.400 leiguíbúða á næstu fjórum árum.

Bjarg er sjálfseignarfélag stofnað af BSRB og ASÍ. Því er ætlað að skapa tekjulægri hópum öruggt og gott húsnæði, en félagið er ekki rekið í hagnaðarskyni.

Opið er fyrir umsóknir og skráningu á biðlista á vef Bjargs íbúðafélags.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?