Vinna við samningalíkan heldur áfram

Ýmsar hugmyndir um hvernig bæta má vinnubrögð við gerð kjarasamninga eru settar fram í bráðabirgðaútgáfu af skýrslu Steinar Holden, norsks sérfræðings í vinnumarkaðsmálum. Skýrslan verður mikilvægt innlegg í umræður innan Salek-hópsins um breytingu á íslenska kjarasamningsmódelinu.

Salek-hópurinn hefur starfað að því frá árinu 2013 að bæta vinnubrögð við gerð kjarasamninga hér á landi. Að hópnum standa heildarsamtök aðila á vinnumarkaði, en ríkissáttasemjari skipuleggur starfsemi hópsins.

Salek-hópurinn fékk Holden, sem er prófessor við Oslóarháskóla, til ráðgjafar, en hann hefur stýrt þremur vinnuhópum um mótun og endurskoðun norska samningalíkansins.

Í bráðabirgðaútgáfu að skýrslu Holden eru lagðar fram ýmsar hugmyndir um hvernig bæta megi vinnubrögðin við gerð kjarasamninga á Íslandi. Markmiðið með skýrslunni er að hvetja til umræðna, til dæmis með því að kynna þau lykilatriði sem gott samningalíkan þarf að uppfylla. Þá er farið yfir reynslu og lausnir frá öðrum Norðurlöndum og bent á þau úrlausnarefni sem Íslendingar standa frammi fyrir í tengslum við upptöku nýs samningalíkans.


Nýtt samningalíkan væri gagnlegt

Holden telur gagnlegt að taka upp nýtt samningalíkan hér á landi til að tryggja sjálfbæra launaþróun hér á landi. Tillögur hans byggja á fyrirkomulagi samningamála á Norðurlöndunum. Fyrirkomulagið er nokkuð ólíkt milli landa en tillögur hans byggja einkum á norska kerfinu. Þá hafði hann til hliðsjónar ábendingar sem komu fram á fundi um 80 manns úr baklandi Salek-hópsins, þar með talið 11 fulltrúa frá BSRB.

Líta má á tillögur Holden sem hlaðborð hugmynda um hvernig betrumbæta megi kjarasamningsgerðina hér á landi. Fyrirhugað er að kynna þessar hugmyndir meðal aðila vinnumarkaðarins og taka þær til umræðu og frekari úrvinnslu.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?