Vonbrigði með tilboð ríkisins

Samninganefndir þriggja fjölmennustu aðildarfélaga BSRB sem semja við ríkið funduðu í dag með samninganefnd ríkisins. Félögin sem um ræðir eru Sjúkraliðafélags Íslands, SFR og Landssambandi lögreglumanna og fór fundur dagsins fram undir stjórn ríkissáttasemjara.

Á fundinum svaraði samninganefnd ríkisins áður framlögðum launakröfum félaganna með móttillögu frá  ríkinu. Tillaga ríkisins vakti ekki góð viðbrögð samninganefnda BSRB félaganna enda tillögurnar nánast þær sömu og lagðar voru fram í tilboð 27. júní sl. Mikið bil er á milli krafna félaganna og tillögu SNR.

Launakröfur félaganna miða að því að litið verði til þess ramma sem kjaradómur dæmdi BHM og hjúkrunarfræðingum. Félögin líta svo á að með tillögu sinni sé ríkið að senda skýr skilaboð um að þeir sem lægst hafa launin fái minni launahækkanir en aðrir ríkisstarfsmenn en m.a. kom fram hjá samninganefnd ríkisins að alls ekki stæði til að launatöflur félaganna yrðu leiðréttar sagði Kristín Á. Guðmundsdóttir, formaður Sjúkraliðafélags Íslands að fundi loknum.

Árni Stefán Jónsson, formaður SFR sagði að loknum fundi að félögin hefðu bent samninganefnd ríkisins á það að ef kjarasamningur yrði gerður á þeim nótum sem tilboð ríkisins í dag boðaði, yrði hann hratt og örugglega felldur af félagsmönnum allra þriggja félaganna, líkt og hjúkrunarfræðingar hefðu gert við svipaðan samning. Með tilboði sínu væri ríkið að senda skýr skilaboð til þeirra starfsmanna sinna sem lægra eru launaðir að þeir eigi að bera mun minna úr býtum en aðrir ríkistarfsmenn.

Ríkissáttasemjari ákvað eftir að ljóst var að hvorugur samningsaðili myndi sveigja frá sínum kröfum að boðað yrði til fundar aftur í næstu viku til að taka stöðuna þá.




Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?