Yfirlýsing um hæfniramma undirrituð

Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, undirritaði í gær yfirlýsingu um hæfniramma um íslenska menntun, ásamt menntamálaráðherra og fulltrúum Alþýðusambands Íslands, Samtaka atvinnulífsins, Kvasa, Leikni - samtökum fullorðinsfræðsluaðila á Íslandi, Bandalagi háskólamanna, Sambandi íslenskra framhaldsskólanema og Landssamtaka íslenskra stúdenta.

Hæfniramma um íslenska menntun er ætlað er að endurspegla stigvaxandi hæfnikröfur í formlegu og óformlegu námi á Íslandi. Undirritunin markar tímamót hvað varðar áherslu á sýnileika ævilangrar menntunar sem fer fram bæði við nám og störf en hæfniramminn nýtist fyrst og fremst almenningi sem tenging milli formlegs og óformlegs náms.

Hæfniramminn hefur tvíþættan tilgang; annars vegar að auka gagnsæi innan menntakerfisins og hinsvegar að auka gagnsæi milli evrópskra menntakerfa.

Varpar ljósi á hæfni

Íslenski hæfniramminn telur sjö hæfniþrep og endurspegla hækkandi þrep auknar hæfnikröfur. Þrepin endurspegla þær kröfur sem gerðar eru til einstaklingsins er varða þekkingu, leikni og hæfni í verkefnum, vinnu og samskiptum. Hæfniramminn eykur þannig gagnsæi og varpar ljósi á þá hæfni sem einstaklingur býr yfir að loknu námi á tilteknu þrepi. Upplýsingar um hæfni má til að mynda nýta í ferilskrá, við starfsþróun og í umsókn um nám.

Aðilar þessarar yfirlýsingar eru samábyrgir fyrir innleiðingu og kynningu á hæfnirammanum og leggja sérstaka áherslu á að þróaðar verði aðferðir við að skilgreina námslok og tengja óformlegt nám við hæfniþrep rammans.

Hægt er að kynna sér hæfniramma um íslenska menntun frekar með því að smella hér.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?