Yfirvinnuskyldan íþyngjandi og ósanngjörn

Ríkari kröfur eru gerðar til opinberra starfsmanna en starfsmanna á almennum vinnumarkaði.

Ákvæði um yfirvinnuskyldu opinberra starfsmanna er íþyngjandi og ósanngjarnt og ósvífið að beita því gegn ljósmæðrum sem eiga í kjaradeilu við ríkið, segir Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, í viðtali við Morgunblaðið í dag.

Í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins er ákvæði um að starfsmenn eigi að vinna þá yfirvinnu sem forstöðumaður telur nauðsynlega, en þó ekki meira en átta stundir á viku miðað við fullt starf. Markmiðið með ákvæðinu er að tryggja að grunnþjónustu sé sinnt.

Fjármálaráðuneytið vísaði í þetta ákvæði í bréfi til Ljósmæðrafélags Íslands þar sem brugðist var við ákvörðun félagsins að félagsmenn ætluðu að hætta að vinna yfirvinnu þar til kjarasamningur næðist við ríkið.

BSRB telur ákvæðið óþarfa og vill að það verði fellt niður. Elín Björg segir að nú þegar lífeyrisréttindi hafi verið samræmd milli opinbera og almenna markaðarins séu þetta ákvæði eitt af þeim málum sem þurfi að ræða við stjórnvöld.

Eins og staðan er núna hvíla ríkari skyldur á opinberum starfsmönnum en starfsmönnum á almennum vinnumarkaði. Þrátt fyrir það eru þeir almennt með lægri laun en starfsmenn í sambærilegum störfum á almenna vinnumarkaðinum. Það er augljóslega óásættanlegt.

Lestu meira um áherslur og stefnu BSRB.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?