Á fjórða hundrað umsókna hjá Bjargi

Opnað hefur verið fyrir skráningu á biðlista hjá Bjargi íbúðafélagi.

Vel á fjórða hundrað umsókna hafa borist Bjargi íbúðafélagi þar til opnað var fyrir skráningu á biðlista eftir íbúð hjá félaginu um miðjan maí. Reiknað er með að fyrstu íbúðir félagsins verði tilbúnar um mitt næsta ár.

Bjarg hefur þegar hafið byggingu á íbúðum í Spönginni í Grafarvogi og í Úlfarsárdal þar sem samtals 238 íbúðir munu rísa. Áformað er að framkvæmdir við samtals 450 íbúðir hefjist á árinu og rúmlega 1.000 til viðbótar á næstu þremur til fjórum árum.

Íbúðir Bjargs eru ætlaðar fjölskyldum og einstaklingum sem eru á vinnumarkaði og hafa verið fullgildir félagsmenn í aðildarfélögum BSRB eða ASÍ í að minnsta kosti 24 mánuði fyrir úthlutun.

Íbúðum verður úthlutað til þeirra sem skrá sig á biðlista og uppfylla skilyrði um tekjur í þeirri röð sem skráningar berast. Undantekning verður þó gerð í upphafi þannig að skráningum á biðlista sem berast fyrir 31. júlí fara í pott og verður raðað í handahófskenndri röð með úrdrætti.

BSRB hvetur félagsmenn í aðildarfélögum bandalagsins sem hafa hug á að sækja um íbúð hjá Bjargi til þess að nýta sér reiknivél á vef Bjargs og skila inn umsókn fyrir lok júlí til að eiga sem mestan möguleika á að fá úthlutað íbúð sem fyrst.

Prófaðu reiknivélina og sendu inn umsókn á vef Bjargs íbúðafélags.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?