Áhersla á jafnrétti og samstöðu á Kvennaþingi ITUC

Þátttakendur á Kvennaþingi ITUC

Fjórða Kvennaþing Alþjóðasambands verkalýðsfélaga (ITUC) fór fram í Melbourne Ástralíu í gær. Í dag hófst svo þing ITUC sem stendur yfir í sex daga. Kvennaþingið er mikilvægur vettvangur kvenna innan verkalýðshreyfingarinnar á heimsvísu til að ræða og skipuleggja aðgerðir í þágu jafnréttis kynjanna, heilsujöfnuðar ásamt efnahagslegum og félagslegum jöfnuði.

Þingin fara fram í kjölfar heimsfaraldurs kórónaveiru. Faraldurinn hefur varpað ljósi á ójafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði og ójafnri skiptingu ábyrgðar á umönnun barna og fjölskyldumeðlima. Forsenda þess að skapa réttlátt samfélag sem einkennist af jafnrétti er að það ríki skilningur á kynjuðum áhrifum faraldursins.

Á Kvennaþinginu var meðal annars fjallað um fjárfestingu í umönnun, útrýmingu kynferðislegs ofbeldis og áreitni á vinnumarkaði, jöfn laun fyrir jafnverðmæt störf, aukinn hlut kvenna í valdastöðum innan verkalýðshreyfingarinnar og réttlát umskipti. Áhersla var lögð á fjölbreytileika í umræðunni með tilliti til aldurs, frumbyggja, LGBTQI+, kvenna sem upplifa misrétti vegna húðlitar, uppruna og fötlunar.

Aðildarfélög ITUC eru 332 og starfa fyrir 200 milljónir launafólks í 163 löndum. Þrátt fyrir að staða kvenna sé afar ólík milli landanna þá er kjarni baráttumála stéttarfélaganna um jafnrétti og jöfnuð þau sömu. Verkefni verkalýðshreyfingarinnar er að skapa betri framtíð sem mun eingöngu nást með samstöðu. Meðal þess sem rætt var á fundinum var framlag kvenna til þjóðarbúsins. Til að mynda kom fram að ef ólaunað vinnuframlag kvenna í Kólumbíu væri metið myndi það að minnsta kosti vega um 20% af hagvextinum og að aukning á atvinnuþátttöku kvenna í Noregi hafi vegið meira í auðlegð þjóðarinnar heldur en olíuvinnslan. Aukin áhersla á jafnréttismál og samstöðu meðal kvenna innan verkalýðshreyfingarinnar var í brennidepli á þinginu. Í Pakistan er nú unnið að því stofna kvennahreyfingu innan stéttarfélaga, m.a. til að stuðla að samvinnu til að auka réttindi kvenna. Þá benti fulltrúi amerískra stéttarfélaga á að stéttarfélög eru stærstu samtök vinnandi kvenna í Ameríku og verkefnið framundan væri að tengja saman konur innan sem utan hreyfingarinnar.

Ályktun 4. Kvennaþings ITUC má lesa hér https://www.ituc-csi.org/outcome-4wwc-en


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?