Algjör stöðnun í jafnréttismálunum

„Ef það er rangt gefið í upphafi og launaþróun í hverjum kjarasamningi er svipuð milli kynjanna, þá er skekkjan alltaf til staðar,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

Heildartekjur karla eru að jafnaði um 29 prósentum hærri en heildartekjur kvenna samkvæmt nýuppfærðri tekjusögu stjórnvalda. Við blasir algjör stöðnun í jafnréttismálum þar sem engin raunveruleg framþróun hefur orðið undanfarið segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, í vitali við RÚV um þessa stöðu.

Meginástæðan fyrir þessum mikla tekjumun er að rangt var gefið í upphafi og ekki hefur tekist að leiðrétta það skakka verðmætamat sem liggur til grundvallar launum stórra kvennastétta.

„Störf þar sem konur eru í meirihluta voru áður unnin inni á heimilunum og færðust svo inn á vinnumarkað, til dæmis umönnunarstörf og störf á leikskólum. Og þá er bara rangt gefið í upphafi af því að samfélag þess tíma mat þessi störf ekki að verðleikum, og það er ennþá þannig. Því ef það er rangt gefið í upphafi og launaþróun í hverjum kjarasamningi er svipuð milli kynjanna, þá er skekkjan alltaf til staðar,“ segir Sonja í viðtalinu við RÚV.

Fleira spilar inn í, til dæmis sú aukna ábyrgð sem konur axla á ólaunaðri vinnu inni á heimilunum og sú staðreynd að konur eru frekar í hlutastörfum en karlar. Þá hefur kynbundið náms- og starfsval einnig mikil áhrif, sem og völd almennt enda veljast konur síður til stjórnunarstarfa en karlar.

Mikill munur á heildarlaunum

Þessi kynbundni launamunur á tekjum er til staðar bæði á almenna og opinbera vinnumarkaðinum. „Við sjáum rosalegan mun á heildarlaunum milli karla og kvenna. Það er oft minni munur á grunnlaunum en þegar maður horfir á yfirvinnu og önnur laun sem bætast ofan á grunnlaun, þá eykst bilið verulega,“ segir Sonja í viðtalinu við RÚV.

Aðspurð hvað skýri þetta segir hún að stéttir þar sem konur séu í miklum meirihluta séu frekar á opinberum vinnumarkaði og þar starfi þær eftir taxta í kjarasamningi og hafi litla möguleika á launahækkunum. „Í störfum þar sem karlar eru í meirihluta er almennt meira tækifæri til að hækka launin. Það virðist vera meira svigrúm til að hífa karla upp í launum en konur,“ segir Sonja.

Í viðtalinu við RÚV fer Sonja einnig yfir hvað hægt er að gera til að snúa ofan af þessari óásættanlegu stöðu. Hún segir að fjölþættar aðgerðir þurfi til. Fyrsta skrefið sé að átta sig á misréttinu, skoða hvernig kvennastörf séu metin til launa og hvað vanti inn í. Viðurkenna þurfi að laun kvenna hafi verið röng alveg frá upphafi.

Vanmat á tilfinningaálagi

Þá sé augljóst vanmat á því tilfinningaálagi sem gjarnan fylgi umönnunarstörfum þar sem konur séu í meirihluta. „Það er algengt í störfum þar sem karlar eru í meirihluta að þeir fái aukagreiðslur fyrir atriði sem ógna öryggi þeirra, en það hefur ekki tíðkast jafnmikið í kvennastéttunum. Ef við tökum til dæmis þá sem starfa við löggæslu þá er viðbót í launum vegna öryggisógnar, en konur sem vinna til dæmis með fólki sem ræður ekki gerðum sínum, þær fá þetta ekki metið til launa með sama hætti,“ segir Sonja í viðtalinu við RÚV.

Hægt er að lesa viðtal RÚV við Sonju í heild sinni hér.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?