BSRB kallar eftir aðgerðum fyrir lágtekjufólk

Lengja ætti tímabil atvinnuleysisbóta í fjögur ár að mati formannaráðs BSRB.

BSRB kallar eftir því að tímabil atvinnuleysisbóta verði lengt tímabundið í fjögur ár og stjórnvöld grípi til frekari aðgerða til að bæta kjör atvinnulausra og lágtekjufólks.

Í ályktun fundar formannaráðs BSRB, sem nú er nýlokið, er þess krafist að stjórnvöld grípi þegar í stað til tímabundinna aðgerða til að bæta kjör atvinnulausra og auki einnig stuðning við lágtekjufólk til lengri tíma.

Könnun sem Varða – rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins framkvæmdi, og kynnt var fyrr í vikunni, sýnir að fjórðungur launafólks og helmingur atvinnulausra eiga erfitt með að ná endum saman. Þar kemur einnig fram að sérstaklega þurfi að bregðast við erfiðri fjárhagsstöðu og slæmri heilsu meðal innflytjenda, ungs fólks og kvenna.

„Formannaráðið leggur til að stjórnvöld lengi tímabil atvinnuleysisbóta tímabundið í að minnsta kosti fjögur ár og hækki auk þess grunnbæturnar. Þá ættu bæði ríki og sveitarfélög að skapa sem fyrst fjölbreytt atvinnutækifæri fyrir fólk,“ segir meðal annars í ályktun formannaráðs BSRB. Þar er einnig kallað eftir auknum stuðningi við tekjulægstu hópana á vinnumarkaði með því að hækka barnabætur, vaxtabætur og húsnæðisbætur.

BSRB kallar einnig eftir því að stofnstyrkjum til byggingar leiguhúsnæðis í almenna íbúðakerfinu verði fjölgað og að aðgengi tekjulágra að heilbrigðiskerfinu verði bætt.

Hægt er að lesa ályktun formannaráðs BSRB í heild sinni hér.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?