Bið eftir frístundaheimili eykur álag

Það getur verið mikill streituvaldur fyrir foreldra þegar börn þeirra komast ekki inn á frístundaheimili.

Um 1.200 börn eru nú á biðlista eftir plássi á frístundaheimilum borgarinnar með tilheyrandi vinnutapi og álagi fyrir foreldra. Erfiðleikar við að manna frístundaheimilin eru ein birtingarmynd þess að þrátt fyrir mikla áherslu á hækkun lægstu launa þurfa þau að hækka enn meira.

Vandræði við mönnun frístundaheimila eru árviss þegar skólar byrja. Staðan hjá frístundaheimilum Reykjavíkurborgar er svipuð og á sama tíma í fyrra, samkvæmt upplýsingum frá Skóla- og frístundaráði Reykjavíkurborgar. Um 200 starfsmenn vantar til starfa í hlutastörf. Það þýðir að aðeins hefur verið hægt að samþykkja umsóknir um 2.000 af þeim 3.200 börnum sem sótt var um pláss fyrir þetta haustið. Búast má við að staðan sé svipuð í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu og heildartala barna á biðlista á höfuðborgarsvæðinu öllu að líkum lætur talsvert hærri.

Staðan er mismunandi milli frístundaheimila, á sumum gengur ágætlega að ráða starfsmenn en á öðrum vantar enn fjölda starfsmanna. Samkvæmt upplýsingum frá Skóla- og frístundasviði borgarinnar er nú verið að skoða hvernig hægt er að bæta starfsumhverfið til að gera störfin meira aðlaðandi. Þá hefur verið auglýst víða eftir starfsmönnum, en þeir eru flestir háskólanemar eða nemar úr elstu árgöngum menntaskóla, sem vinna á frístundaheimilum með skóla.

Hækka þarf laun umönnunarstétta

BSRB telur augljóst að laun starfsmanna á frístundaheimilum, eins og annarra umönnunarstétta, þurfi að vera hærri. Auk þess má eflaust bæta starfsumhverfið, eins og borgin virðist þegar byrjuð að gera. Í kjarasamningum undanfarin ár hefur réttilega verið lögð mikil áhersla á hækkun lægstu launa. Erfiðleikar við að manna störf á frístundaheimilum, sem og önnur störf við umönnun, benda til þess að þar þurfi að ganga enn lengra.

Áhrifin af þessum árvissu erfiðleikum á barnafjölskyldur geta verið mikil. Þegar yngstu börnin komast ekki inn á frístundaheimili þurfa foreldrar að bjarga sér. Einhverjir búa svo vel að eiga ættingja eða vini sem geta hjálpað. Aðrir eru með vinnuveitendur sem eru tilbúnir að veita sveigjanleika til að koma til móts við starfsmenn sína. Einhverjir verða fyrir vinnutapi, með tilheyrandi tekjuskerðingu.

Hvernig sem foreldrar fara að því að takast á við það þegar börn komast ekki inn á frístundaheimili að loknum skóla er ljóst að þetta ástand er mikill streituvaldur fyrir fólk í þessari stöðu. Með því að vinna markvisst að fjölskylduvænna samfélagi má draga úr þeim áhrifum, til dæmis með sveigjanlegum vinnutíma svo hægt sé að takast á við óvæntar aðstæður á borð við þessar.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?