BSRB leggst alfarið gegn nýjum tillögum Reykjavíkurborgar um breytingar á leikskólastarfi í borginni, þar sem meðal annars er gert ráð fyrir að stytta dvalartíma barna og hækka gjöld fyrir leikskólavistun verulega. Í umsögn bandalagsins í samráðsgátt borgarinnar kemur fram að breytingarnar muni hafa víðtæk og neikvæð áhrif á fjölskyldur, sérstaklega konur og tekjulægri heimili.
Tillögurnar fela í sér að dvalartími barna verði styttur í 38 klst. á viku og að gjöld fyrir vistun umfram þann tíma hækki verulega. Þá er einnig lagt til að núverandi afsláttarkerfi verði lagt niður og tekið upp nýtt tekjutengt kerfi, sem felur í sér mikla hækkun gjalda fyrir flesta foreldra.
Eykur álag á foreldra — sérstaklega mæður
Í umsögninni er bent á að 93% barna í leikskólum Reykjavíkurborgar séu í 8 tíma vistun eða lengri, og því ljóst að breytingarnar komi niður á langflestum fjölskyldum. Sérstaklega sé áhyggjuefni að áhrif þeirra muni bitna mest á konum.
segir í umsögninni. BSRB bendir jafnframt á að reynsla af svokölluðu Kópavogsmódeli sýni skýrt að slíkar breytingar hafi valdið aukinni streitu hjá foreldrum og bitni sérstaklega á lágtekjufjölskyldum og einstæðum foreldrum.
Kallar eftir raunverulegum lausnum sem styrkja leikskólana
BSRB er sammála því að leikskólakerfið standi frammi fyrir vandamálum sem brýnt sé að leysa. Leikskólastörf eru kvennastörf og þau þurfi að endurmeta með tilliti til raunverulegs verðmætis þeirra. Bandalagið ítrekar að meginvandi leikskólakerfisins snúi að launakjörum, starfsumhverfi og mönnun, og að bæta þurfi kjör og aðstæður starfsfólks til að tryggja gæði leikskólastarfs.
BSRB bendir jafnframt á alvarleika þess að borgin hafi horft algjörlega framhjá lagaskyldu sinni til þess að jafnréttismeta alla stefnumótun á vegum sveitarfélagsins.