Tugir þúsunda kvenna og kvára komu saman í miðbæ Reykjavíkur í tilefni af 50 ára afmæli Kvennafrísins 1975. BSRB var aðili að Kvennaverkfallinu og hvatti félagsfólk til þátttöku í samstöðuaðgerðum og fundum um allt land. Yfirskrift útifundarins á Arnarhóli í ár var: „Við mætum þar til við þurfum ekki að mæta lengur.“
„Sko mömmu hún hreinsaði til“ – söguganga
Dagskráin í Reykjavík hófst með sögugöngu undir yfirskriftinni „Sko mömmu hún hreinsaði til“. Þar tók Bríet Bjarnhéðinsdóttir (leikin af Söndru Barilli) á móti göngufólki við upphaf göngunnar á Sóleyjargötu og leiddi það inn í sögu kvennabaráttunnar.
Á leiðinni á Arnarhól tók við röð viðburða sem táknuðu vörður í kvennabaráttunni og heiðruðu baráttukonur sögunnar. Viðburðirnir voru fjölbreyttir – meðal annars tónlist, gjörningar og uppistand – og mynduðu lifandi frásögn af sögu kvennabaráttunnar.
Gangan var hressileg áminning um að þeir áfangar í jafnréttisbaráttunni sem nú þegar hafa unnist hafi kostað harða baráttu kvenna sem á undan gengu – og að ekkert gerist af sjálfu sér. Hún minnti jafnframt á að sigrarnir eru margir, en líka að betur má ef duga skal: bakslag hefur birst í jafnréttismálum og mikilvægt er að standa vörð um áfanga fyrri kynslóða.
Útifundur á Arnarhóli
Eftir sögugönguna söfnuðust konur og kvár saman á útifundi á Arnarhóli þar sem dagskráin var þétt og sjónum beint bæði að samtímanum og framtíðinni. Krafan var skýr: að stjórnvöld grípi til raunverulegra aðgerða svo fullu jafnrétti verði náð.
Yfirskrift dagsins – „Við mætum þar til við þurfum ekki að mæta lengur“ – undirstrikaði þrautseigjuna sem hefur einkennt baráttuna í hálfa öld, en líka vonina um samfélag þar sem slíkar aðgerðir verða óþarfar vegna þess að jafnrétti er orðið sjálfsagður raunveruleiki.
Samstöðufundir um allt land
Reykjavík var þó ekki eini staðurinn þar sem konur létu til sín taka. Konur og kvár hringinn í kringum landið lögðu niður störf og víða voru haldnir samstöðufundir í tilefni dagsins.