BSRB styður baráttu hinsegin fólks

Regnbogafánarnir blakta við hún við höfuðstöðvar BSRB þó ekki sé miklum vindi fyrir að fara þessa dagana.

Hinsegin dagar verða með öðru sniði þetta árið en undanfarin ár en þó er gleðilegt að ekki þarf að aflýsa þeim með öllu eins og í fyrra þó heimsfaraldur kórónuveirunnar haldi áfram. BSRB styður réttindabaráttu hinsegin fólks og regnbogafánarnir blakta að sjálfsögðu við hún á BSRB-húsinu við Grettisgötu þessa vikuna.

Eins og í fyrra þarf að hætta við áformaða gleðigöngu vegna heimsfaraldursins, en að þessu sinni verða ýmsir viðburðir í boði á Hinsegin dögum sem falla innan samkomutakmarka sem nú eru í gildi. Hægt er að kynna sér dagskrána á vef Hinsegin daga auk þess sem gott er að fylgjast með Facebook-síðu Hinsegin daga þar sem settar eru inn upplýsingar um viðburðina.

Hinsegin dagar hafa innt okkur á baráttu hinsegin fólks gegn mismunun og fordómum í tvo áratugi. Það hefur mikið áunnist í baráttu hinsegin fólks á undanförnum árum og áratugum en það er enn verk að vinna. Það er því full ástæða til að styðja hinsegin fólk í baráttunni fyrir þeim grundvallarmannréttindum að geta lifað án þess að upplifa mismunun.

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?