Mikill meirihluti ánægður með styttri vinnuviku

Afgerandi meirihluti opinberra starfsmanna er ánægður með styttingu vinnuvikunnar.

Nærri tveir af hverjum þremur opinberum starfsmönnum eru ánægðir með styttingu vinnuvikunnar samkvæmt könnun sem Prósent gerði fyrir Fréttablaðið og fjallað er um í Fréttablaðinu í dag. Ánægjan er mun meiri hjá starfsfólki ríkis og sveitarfélaga en starfsfólks á almennum vinnumarkaði.

Alls segjast um 64 prósent opinberra starfsmanna mjög eða frekar ánægð með styttinguna. Þá segjast um 17 prósent hvorki ánægð né óánægð og um 18 prósent segjast mjög eða frekar ósátt.

Ánægjan með styttingu vinnuvikunnar er mun meiri hjá starfsmönnum hins opinbera en á almenna vinnumarkaðinum. Þannig segjast um 44 prósent ánægð með styttinguna á almenna markaðinum.

Munurinn skýrist mögulega af því að samið var um styttingu með mismunandi hætti í kjarasamningum. Á almenna markaðinum var ákvæði um að heimilt væri að stytta vinnutímann á vinnustöðum á meðan aðildarfélög BSRB og önnur stéttarfélög opinberra starfsmanna sömdu um að styttingin yrði sjálfkrafa tekin upp á öllum vinnustöðum. Fram kemur í könnuninni að styttingin hefur ekki verið innleidd á vinnustöðum 21 prósents svarenda.

Stytting vinnuvikunnar hjá opinberu starfsfólki sem vinnur í dagvinnu tók gildi um síðustu áramót en hjá starfsfólki í vaktavinnu tók styttingin gildi í byrjun maí síðastliðins.

Í könnun Prósent fyrir Fréttablaðið kemur einnig fram að konur eru mun ánægðari með styttinguna en karlar. Þegar svör eftir kynjum eru skoðuð óháð því hvort viðkomandi vinnur á almenna markaðinum eða hinum opinbera kemur í ljós að um 62 prósent kvenna eru ánægð með styttinguna samanborið við 45 prósent karla. Þar gæti haft áhrif að stórir kvennahópar starfa hjá ríki og sveitarfélögum og eru til að mynda um það bil tveir þriðju hlutar félagsmanna í aðildarfélögum BSRB konur.

Nánar er fjallað um könnunina í frétt Fréttablaðsins í dag.

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?