BSRB vill ganga lengra í að afnema launaleynd

Launagagnsæi er mikilvægt skref í að stuðla að jafnrétti kynjanna.

Ganga þarf lengra en gert hefur verið í því að afnema launaleynd enda hafa núgildandi ákvæði haft sáralítil eða engin áhrif í átt til aukins launagagnsæis að mati BSRB. Þetta kemur fram í umsögn bandalagsins um frumvarp um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.

Bandalagið kallar eftir því að lagðar verði skyldur á fyrirtæki og stofnanir að birta með reglubundnum hætti ákveðna tölfræði úr launabókhaldi, annað hvort opinberlega eða fyrir starfsfóli og trúnaðarmönnum. Sem dæmi gæti fyrirtækjum og stofnunum verið skylt að birta árlega upplýsingar um meðaltal og miðgildi launa, brotið niður eftir kyni.

Í umsögn BSRB er tekið fram að hægt væri að skilyrða þessa skyldu við atvinnurekendur af ákveðinni stærð en þar sem ákvæðið er ekki sérstaklega íþyngjandi er lagt til að þetta verði almennt ákvæði sem eigi við um alla vinnustaði. Bandalagið leggur til að Jafnréttisstofu verði falið að hafa eftirlit með því að fyrirtæki og stofnanir uppfylli þessar skyldur.

Eins og fram kemur í umsögninni hafa fjölmargar alþjóðastofnanir og fræðimenn komist að þeirri niðurstöðu að launagagnsæi geti verið mikilvægt skref í að stuðla að launajafnrétti kynjanna. BSRB hefur beitt sér fyrir jafnrétti á vinnumarkaði og lítur á þetta sem eitt skref í þeirri baráttu.

Gildissvið jafnréttislaga víkkað út

Í umsögn BSRB er því fagnað að gildissvið kynjajafnréttislaganna sé víkkað þannig að þau gildi ekki eingöngu fyrir karla og konur heldur einnig einstaklinga með hlutlausa kynskráningu. Þá telur bandalagið að flestar breytingar á ákvæðum um jafnlaunavottun og jafnlaunastaðfestingu séu til bóta, en kallar eftir því að Jafnréttisstofa fái nægilegt fjármagn til að sinna hlutverki sínu við eftirlit og eftirfylgni vottunar.

Að lokum leggur bandalagið til í umsögn sinni að forgangsregla jafnréttislaga verði lögfest með skýrum hætti. Reglan kom fyrst fram í dómi Hæstaréttar, og er inntak hennar það að veita skuli umsækjanda af því kyni sem hallar á starf ef viðkomandi er að minnsta kosti jafn hæf eða hæfur og keppinautur um starf. BSRB telur rökrétt að reglan verði innleidd í lög með skýrum hætti enda hefur þessi regla verið staðfest með fleiri dómum Hæstaréttar og úrskurðum kærunefndar jafnréttismála.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?