Umsögn um frumvarp um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna

Umsögn BSRB um frumvarp til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, 14. mál

Reykjavík, 29. október 2020

BSRB hefur fengið til umsagnar frumvarp um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. BSRB tók þátt í vinnu við frumvarpið á fyrri stigum í gegnum starfshópa sem störfuðu sl. vetur í forsætisráðuneytinu. Þá skilaði bandalagið einnig umsögn í samráðsgátt stjórnvalda í sumar.

Gildissvið, markmið og orðskýringar

BSRB fagnar því að gildissvið kynjajafnréttislaganna sé víkkað út frá því að gilda bara um karla og konur yfir í að taka einnig til einstaklinga með hlutlausa kynskráningu. Í áður nefndum starfshópum var þetta atriði töluvert rætt og farið yfir ólík sjónarmið. Að mati BSRB er mikilvægt að horfast í augu við þann veruleika sem við búum við í dag, þ.e. að fullu jafnrétti milli karla og kvenna er ekki náð. Umræða og áherslur í jafnréttismálum eru þó í stöðugri þróun og telur BSRB mikilvægt að stuðla einnig að því að kynsegin fólk og aðrir sem skilgreina sig utan hefðbundinnar tvíhyggju kynjakerfis séu ekki undanskilin. Að mati BSRB hefur við smíði frumvarpsins tekist vel að halda jafnvægi á þessum sjónarmiðum. Þá fagnar BSRB því einnig að inn í lögin sé komið ákvæði um fjölþætta mismunun.

BSRB gerði athugasemdir við skilgreiningar á hugtökunum kynbundin og kynferðisleg áreitni í umsögn í samráðsgátt. Tekið var tillit til þeirra athugasemda í meðferð ráðuneytisins. Því fagnar bandalagið og leggur áherslu á að þessar skilgreiningar fari óbreyttar í gegnum þingið.

Launajafnrétti

BSRB telur að flestar þær breytingar sem gerðar hafa verið á ákvæðum um jafnlaunavottun og jafnlaunastaðfestingu séu til bóta. BSRB leggur áherslu á að Jafnréttisstofu verði gert kleift að sinna stærra hlutverki við eftirlit og eftirfylgni vottunar og bendum við á í umsögn við frumvarp um stjórnsýslu jafnréttismála að tryggja þurfi stofnuninni það fjármagn sem nauðsynlegt er í því skyni sem og öðru. Þá er jákvætt að skerpt hafi verið á dagsektarheimildum Jafnréttisstofu. Í 6. gr. frumvarpsins er jafnlaunaregla sú sem áður var í 19. gr. fyrri laga nr. 10/2008. BSRB fagnar því að tekið sé út skilyrði um sama atvinnurekanda og telur tækifæri felast í því að ný réttarframkvæmd verði til þar sem heimilt verði að horfa til sambærilegra starfa þrátt fyrir að þau séu ekki hjá sama atvinnurekanda. Gæti þar t.d. verið um að ræða dóttur- og móðurfyrirtæki, aðalverktaka og undirverktaka eða ólíkar stofnanir ríkis eða sveitarfélaga.Í 3. mgr. 6. gr. frumvarpsins er ákvæði um launaleynd sem er samhljóða núgildandi ákvæði.

BSRB og ASÍ lögðu til í vinnu við frumvarpið að gengið yrði lengra í því að afnema launaleynd við endurskoðun jafnréttislaga nú. Núgildandi ákvæði hefur haft sáralítil eða engin áhrif í átt til aukins launagagnsæis. Fjölmargar alþjóðastofnanir og fræðimenn telja að launagagnsæi gæti verið mikilvægt skref í að stuðla að launajafnrétti kynjanna. BSRB leggur til að lagðar verði skyldur á fyrirtæki og stofnanir að birta með reglubundnum hætti ákveðna tölfræði úr launabókhaldi, auk þess að uppfylla aðrar skyldur laganna. Sem dæmi gæti fyrirtækjum og stofnunum verið gert skylt að birta, annað hvort opinberlega eða fyrir starfsfólki og trúnaðarmönnum, árlega upplýsingar um meðaltal og miðgildi launa, eftir kyni. Hægt væri að skilyrða þessa skyldu við atvinnurekendur af ákveðinni stærð, en þar sem ekki er um sérstaklega íþyngjandi ákvæði að ræða leggur BSRB til að þetta verði almennt ákvæði. Jafnréttisstofa gæti haft eftirlit með þessu ákvæði.

Forgangsregla jafnréttislaga

BSRB lagði til við vinnslu frumvarpsins að hin svokallaða forgangsregla jafnréttislaga yrði lögfest. Reglan kom fyrst fram í dómi Hæstaréttar í máli 339/1990 og inntak hennar er að veita skuli umsækjanda af því kyni sem hallar á á starfssviðinu starf ef viðkomandi er í það minnsta jafnhæf/ur og keppinautur um starfið. Reglan hefur verið staðfest í dómum Hæstaréttar og úrskurðum kærunefndar jafnréttismála margoft síðan. BSRB telur því engin rök hníga gegn því að reglan verði innleidd í lögin með berum orðum. Dómstólar hefðu eftir sem áður það hlutverk að túlka og beita reglunni, en almenningur og atvinnurekendur yrðu jafnframt meðvitaðri um gildi hennar og mikilvægi þess að gæta að jafnrétti við mannaráðningar.

BSRB leggur til að frumvarpið verði að lögum með framangreindum breytingum og eru fulltrúar bandalagsins tilbúnir að mæta fyrir allsherjar- og menntamálanefnd og ræða þessar athugasemdir.

Fyrir hönd BSRB

Dagný Aradóttir Pind
lögfræðingur

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?