Einkastofur fá greitt fyrir fjölda óþarfa aðgerða

Áætla má að hundruðum milljóna króna sé eytt í óþarfar aðgerðir að mati landlæknis.

Ný úttekt sem embætti landlæknis hefur gert sýnir að sterkar vísbendingar eru um að fjöldi óþarfa aðgerða sé gerður á einkareknum læknastofum. Kostnaðurinn við þessar óþarfa aðgerðir er talinn hlaupa á hundruðum milljóna króna, en hann er nær alfarið greiddur af ríkinu.

Í skýrslu ráðgjafafyrirtækisins McKinsey, sem birt var haustið 2016, var sýnt fram á að tíðni hálskirtlatöku væri um það bið þrisvar sinnum hærri hér á landi en á nágrannalöndunum. Aðgerðirnar eru nánast allar gerðar á einkareknum læknastofum.

Í kjölfar birtingar skýrslu McKinsey rannsakaði embætti landlæknis tíðni fjögurra tegunda aðgerða hér á landi, það er ristilspeglana, speglana á hnjáliðum, rörísetningar hjá börnum og hálskirtlatökum.

Niðurstöður landlæknis benda til þess að tíðni þessara fjögurra aðgerða sé mun hærri hér á landi en á hinum Norðurlöndunum. Yfirgnæfandi meirihluti þeirra er gerður á einkareknum læknastofum sem fá greitt fyrir hverja aðgerð frá Sjúkratryggingum Íslands.

Í frétt á vef embættisins er bent á að á sama tíma bendi biðlistar til þess að of lítið sé gert af aðgerðum sem fyrst og fremst séu gerðar af opinberum stofnunum, til dæmis mjaðmaskiptaaðgerðum. Landlæknir tekur undir með McKinsey um að ástæða sé til að ætla að fjöldi aðgerða tengist að einhverju leyti ólíkum greiðslukerfum í opinberri og einkarekinni þjónustu.

Í grein í Stundinni í dag er bent á að einkarekin heilbrigðisþjónusta, sem er nær eingöngu fjármögnuð með greiðslum frá Sjúkratryggingum Íslands, geti verið verulega arðbær. Þannig eru tvö einkarekin heilbrigðifyrirtæki meðal fjörutíu arðbærustu fyrirtækja landsins.

Ríkið missir yfirsýnina

Breytingar á raunútgjöldum til heilbrigðismála frá 2010Málið er að sönnu grafalvarlegt, en ætti ekki að koma á óvart. Það er augljós hvati innbyggður í einkarekna hluta heilbrigðiskerfisins til að gera sem flestar aðgerðir þar sem Sjúkratryggingar Íslands greiða fyrir hverja aðgerð.

Það er augljós innbyggð skekkja í kerfinu sem hefur versnað verulega frá hruni. Þannig má sjá að frá árinu 2010 hafa útgjöld til einkarekinnar heilbrigðisþjónustu aukist að raunvirði um 40% á sama tíma og 10% samdráttur hefur verið í útgjöldum til opinbera kerfisins.

BSRB hefur ítrekað bent á þessa skekkju. Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, dósent og sérfræðingur í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands, fjallaði til að mynda um þessa stöðu í erindi á opnum fundi BSRB og ASÍ um heilbrigðismál í maí 2016. Þar benti hún á að með aukinni einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu takmarkist geta og svigrúm stjórnvalda til að taka stefnumótandi ákvarðanir um forgangsröðun og skipulag heilbrigðiskerfisins í þágu almannahagsmuna.

Þetta sést svart á hvítu í tölum landlæknis. Dregið hefur verið saman í nauðsynlegri þjónustu sem opinberar stofnanir inna af hendi vegna fjárskorts, jafnvel nú þegar mikil uppsveifla er í hagkerfinu. Á sama tíma aukast útgjöldin til einkarekna kerfisins verulega. Þrátt fyrir að sýnt sé fram á þetta virðist fátt benda til þess að stjórnvöld ætli sér að bregðast við.

Fjöldi aðgerða tengdur fjölda lækna?

Nú sýna tölur landlæknis svart á hvítu hver staðan er:

  • Ristilspeglunum hefur fjölgað um 160% frá árinu 2008 til 2016 þrátt fyrir að ekkert bendi til þess að tilvikum ristilkrabbameins fari fjölgandi.
  • Speglunum á hnjáliðum einstaklinga yfir 50 ára hefur fjölgað um nærri 50% þrátt fyrir að rannsóknir sýni að aðgerðirnar séu í besta falli árangurslausar og geti jafnvel verið skaðlegar.
  • Röraísetningum í eyru barna hefur fjölgað um 29% þrátt fyrir að dregið hafi verulega úr eyrnabólgu í börnum eftir að bólusetningar gegn pneumókokkum hófst árið 2011, en það er ein algengasta orsök eyrnabólgu hjá börnum.
  • Hálskirtlatökum hefur fjölgað um 145% og eru þær margfalt algengari hér á landi en á nágrannalöndunum. Engar haldbærar skýringar á þessu hafa komið fram í samtölum landlæknis við forsvarsmenn háls- nef- og eyrnalækna.

Ekki er fullyrt um orsakir þessa í skýrslu Landlæknis, en þar segir þó að sú spurning vakni hvort fjöldi aðgerða sé mögulega tengdur fjölda sérfræðilækna sem framkvæmi aðgerðirnar fremur en þörfum sjúklingana.

Í niðurstöðum embættisins segir jafnframt:

Embætti landlæknis hefur ekki reynt að meta kostnað við þessar aðgerðir en ætla má að hann skipti hundruðum milljóna.

Með öðrum orðum, hundruðum milljóna króna er eytt í aðgerðir sem sumar hverjar virðast óþarfar. Á sama tíma eru ekki til peningar til að eyða biðlistum eftir aðgerðum á borð við liðskipti í mjöðmum og hnjám, sem gerðar eru á opinberum stofnunum.

Öll áform um einkavæðingu verði stöðvuð

Þessi staða er algerlega óásættanleg. Stöðva verður þegar í stað öll frekari áform um einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu og bregðast við því sem virðist vera einhverskonar sjálftaka einkarekinna heilbrigðisfyrirtækja.

Þá hljóta niðurstöður landlæknis að verða til þess að heilbrigðisráðherra leggur í allsherjarúttekt á einkarekna hluta heilbrigðiskerfisins til að sjá hvort víðar er pottur brotinn.

Lesa má nánar um baráttu BSRB gegn einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu hér.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?