Ekki einkavætt til að mæta þörfum sjúklinga

Fundur BSRB um heilbrigðismál var afar vel sóttur.

Einkarekin heilbrigðisfyrirtæki vega að gæðum íslenskrar heilbrigðisþjónustu á margan hátt, sagði Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, á fundi BSRB um heilbrigðismál í hádeginu í dag.

Á fundinum var leitast við að svara þeirri spurningunni hvort hagsmunir sjúklinga liggi til grundvallar þegar talað er um einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Niðurstaða Birgis Jakobssonar landlæknis var skýr. Í ávarpi hans við upphaf fundar sagði hann: „Mitt svar við þessari spurningu, erum við að einkavæða með þarfir sjúklinga í huga, svarið við þeirri spurningu er að við erum ekki að því eins og sakir standa.“

Hann kallaði eftir því að gert verði hlé á einkavæðingu og gerð alvara úr því að styrkja innviði opinberi heilbrigðisþjónustunnar; heilsugæslunni um allt land, Landspítalans og sérfræðiþjónustu úti á landi.

"Þetta eru forgangsatriði sem við verðum að styrkja og sjá til þess að verið sé að veita sambærilega þjónustu og gerist og gengur í nágrannalöndunum. Að því loknu getum við farið að endurskoða okkar einkarekstur og ákveða hvernig við viljum haga honum, ef við viljum hafa hann," sagði Birgir.

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar og áhugamaður um heilbrigðiskerfið, var sama sinnis. Hann benti á að engin heildarstefna sé til fyrir heilbrigðiskerfið.

Kári Stefánsson á fundi BSRB„Ástæðan fyrir því að það hefur átt sér stað nokkurn vegin stjórnlaus einkavæðing í heilbrigðiskerfinu er að við höfum ekki haft heildarstefnu. Hér voru sett lög um sjúkratryggingar og vegna skorts á heildarstefnu hafa Sjúkratryggingar Íslands raunverulega getað ráðið því hvernig einkavæðingin fer fram,“ sagði Kári.

Vegið að gæðum heilbrigðisþjónustunnar

Hann sagði það alveg skýrt í sínum huga að einkarekin heilbrigðisfyrirtæki á borð við Klíníkina í Ármúlanum vegi að gæðum íslenskrar heilbrigðisþjónustu á margan hátt. Hann nefndi sem dæmi að þar starfi engir lyflæknar og ef vandamál komi upp í svæfingu, til að mynda ef sjúklingur fer í hjartastopp, sé ekkert til ráða annað en að senda hann bráðamóttöku Landspítalans. Sama gildi þegar sýkingar komi upp eftir aðgerðir hjá einkastofunum.

Kári benti einnig á að erfitt geti verið í jafn smáu samfélagi og á Íslandi að viðhalda þekkingu og getu heilbrigðisstarfsfólks og þjálfa nýtt. Starfsmenn þurfi að viðhalda sinni kunnáttu með því að gera ákveðinn fjölda aðgerða og með því að dreifa þeim á marga staði sé verið að draga úr möguleikum starfsmanna til að halda sinni þjálfun. Þá þurfi að mennta næstu kynslóð heilbrigðisstarfsmanna á því háskólasjúkrahúsi sem Landspítalinn er, það verði ekki gert á einkareknum stofum úti í bæ.

Með því að flytja svona aðgerðir út í bæ erum við að minnka okkar möguleika á að viðhalda þeirri heilbrigðisþjónustu sem við höfum í dag og eiga þá möguleika á að bæta hana í framtíðinni.
– Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.

Birtar verða fleiri fréttir af fundinum á vef BSRB á næstunni.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?