Baráttufólk fjölmennti á fundi BSRB um allt land

Starfsfólk í verkfalli fjölmenntu á baráttufundi BSRB í Bæjarbíó Hafnarfirði, Hótel Selfossi, Kaffi Krók og víðar til að stilla saman strengi og láta blása sér baráttuanda í brjóst.

Beint streymi var frá Bæjarbíói þar sem hlustað var á stuttar hugvekjur Anítu Óskar Georgsdóttur og Magdalenu Önnu Reimus, sem eru í verkfalli um þessar mundir, og ávarp Sonju Þorbergsdóttur formanns BSRB. Tónlistarfólkið Friðrik Dór, Bóas og Lilja og Lúðrasveit verkalýðsins hélt uppi stemningu á milli ræða en Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis, stýrði fundi.


 

 

 

 

 

 

„Það er mjög sárt að finna fyrir mismunun í starfi og það getur skapað móral á vinnustað. Maður verður sár og reiður af hverju manneskja í sömu stöðu og ég fær hærri laun, að gera það nákvæmlega sama. Það er t.d ein sem er í nákvæmlegu sömu prósentustöðu og ég, við gerum nákvæmlega það sama en við vinnum bara í mismunandi námsveri. Þetta finnst mér bara alls ekki rétt né réttlátt,” sagði Aníta Ósk, stuðningsfulltrúi í Reykjanesbæ, í sinni ræðu.

 

 

„Ofan á álagið og eftir kvillana af covid tímunum er svo verið að mismuna okkur í launum og við þurfum að vera í verkfalli. Og það hefur ekki bara áhrif á okkur, heldur líka yfirmenn okkar, samstarfsfélaga, börnin og foreldra þeirra. Þetta hefur áhrif á okkur öll og við verðum að fara að klára þetta!” sagði Magdalena Anna Reimus, leikskólaliði á Selfossi, í ræðu sinni.

 

 

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, lagði áherslu á kröfur BSRB í lokaræðu fundarins og sagði það ótrúlegt vera í þeirri stöðu að standa í verkföllum árið 2023 til þess að knýja fram sömu laun fyrir sömu störf. „Sú ákvörðun sveitarfélaga að fara í störukeppni við sitt eigið starfsfólk vegna sanngjarnra krafna þeirra, sýnir óbilgirni og þrjósku. Þar er ekki tekið tillit til þess að verkföll fela í sér miklu hærri fórnarkostnað fyrir samfélagið allt vegna skerðingar á grunnþjónustu,“ sagði Sonja.

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?