Skert þjónusta hjá yfir 60 leikskólum vegna verkfalla

Þriðja vika verkfallsaðgerða BSRB hefst á morgun en lítið hefur þokast í kjaradeilu bandalagsins við Samband íslenskra sveitarfélaga.

Um Hvítasunnuhelgina lögðu félagsmenn Kjalar, aðildarfélags BSRB, niður störf í tuttugu sundlaugum og íþróttamiðstöðvum í átta sveitarfélögum. Félagsfólk Kjalar krefst jafnréttis og aðgerða af hálfu sveitarstjórna í yfirlýsingu sem það sendi frá sér í morgun.

Á morgun, þriðjudag, bætast fleiri leikskólastarfsmenn við þann hóp sem þegar hefur lagt niður störf og mun áhrifa verkfallanna gæta í yfir 60 leikskólum og leikskóladeildum grunnskóla ellefu sveitarfélaga. Um 900 leikskólastarfsmenn munu leggja niður störf.

Félagsmenn hafa þegar samþykkt frekari verkföll í atkvæðagreiðslum og að óbreyttu verður stígandi á verkfallsaðgerðum BSRB frá 5 júní samkvæmt aðgerðaráætlun BSRB. Náist ekki að semja munu verkföllin samtals ná til að minnsta kosti 2500 starfsmanna í 29 sveitarfélögum.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?