Meginefni fundarins var alvarleg atlaga stjórnvalda að réttindum vinnandi fólks, meðal annars með áformum um að fella niður áminningarskyldu. Þá voru einnig rædd mörg önnur mikilvæg málefni, svo sem áherslur BSRB í komandi sveitastjórnarkosningum, efnahagsmál, fræðslumál og staða launafólks.
Hrannar Már Gunnarsson Lögfræðingur BSRB hóf fundinn á að greina frá áformum stjórnvalda um afnám áminningarskyldu. Hann lagði áherslu á mikilvægi þess að BSRB stígi fast til jarðar, standi vörð um réttindi launafólks og bregðist við neikvæðri orðræðu um opinbert starfsfólk sem verið hefur áberandi í fjölmiðlum undanfarið. Að loknu erindi Hrannars stýrði Inga Auðbjörg Straumland vinnusmiðju þar sem formenn ræddu leiðir til að snúa vörn í sókn.
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hagfræðingur BSRB, hélt erindi þar sem hún fór yfir stöðu efnahagsmála í byrjun vetrar. Kristín Heba Gísladóttir, framkvæmdastjóri Vörðu, kynnti nýjar niðurstöður könnunar um stöðu launafólks sem gerðar verða opinberar í dag, miðvikudag.
Komandi sveitastjórnarkosningar voru einnig á dagskrá og ræddu formenn áherslur BSRB í þeim. Þá var samþykkt að BSRB fari í ferli til að hljóta hinseginvottun Samtakanna ’78 og styðji þannig við réttindabaráttu hinsegin fólks á vinnumarkaði.
Fundurinn var afar vel heppnaður; umræður voru líflegar og hópavinnan árangursrík.
Formannaráð BSRB er skipað formönnum aðildarfélaga bandalagsins hverju sinni. Ráðið mótar stefnu og megináherslur BSRB í málum sem upp koma milli þinga bandalagsins. Formaður BSRB er jafnframt formaður ráðsins.