Sólveig til BSRB

Sólveig Stefánsdóttir er nýr fjármálastjóri BSRB

Sólveig Stefánsdóttir hefur tekið til starfa sem fjármálastjóri BSRB. Fjármálastjóri bandalagsins ber ábyrgð á fjármálum og fjárstýringu BSRB og tengdra aðila, fjárhagsáætlunum og eftirliti, auk þess að stuðla að skilvirkum rekstri bandalagsins, sjóða þess og tengdra aðila.

Sólveig er fyrrum fjármála- og framkvæmdastjóri Saga Natura en áður var hún um langt skeið fjármálastjóri Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Hún er viðskiptafræðingur að mennt, löggiltur verðbréfamiðlari, auk þess sem hún hefur lokið MBA-námi.

„Við fögnum því að fá Sólveigu til liðs við okkur sem fjármálastjóra. Hún bætir reynslu og þekkingu við kraftmikinn hóp starfsfólks sem starfar á skrifstofunni. Það hefur þegar komið fram að hæfileikar hennar og fagmennska munu styrkja starfsemi okkar enn frekar,“ segir Magnús Már Guðmundsson, framkvæmdastjóri BSRB.

Sólveig hóf störf á skrifstofu BSRB um síðustu mánaðarmót.