Fyrsta skóflustunga Bjargs í Vogabyggð

Fyrstu skóflustungurnar að nýjum íbúðakjarna Bjargs í Vogabyggð var tekin í blíðskaparveðri í gær.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, forsvarsmenn Bjargs íbúðafélags og stjórnendur Jáverks tóku í gær fyrstu skóflustunguna að 74 nýjum leiguíbúðum sem félagið byggir við Bátavog 1, á Gelgjutanga við Vogabyggð.

Byggingarfélagið Jáverk mun sjá um byggingu fjölbýlishúsanna við Bátavog, Verkfræðistofa Reykjavíkur sér um verkfræðihönnun og arkitekt er T.ark arkitektar.

Nú þegar er Bjarg með yfir 200 íbúðir í útleigu á þremur ólíkum stöðum, í Móavegi, Grafarvogi, í Urðarbrunni, Úlfarsárdal og í Asparskógum á Akranesi. Þá eru framkvæmdir við á þriðja hundrað nýjar íbúðir komnar vel á veg og hátt í 500 íbúðir eru í hönnunarferli.

Bjarg mun síðar á árinu afhenda íbúðir á nokkrum stöðum í Reykjavík. Íbúðirnar eru í Silfratjörn í Úlfarsárdal, í Hraunbæ og í Hallgerðargötu við Kirkjusand. Þá verða einnig afhentar íbúðir á næstum mánuðum á Akureyri og í Þorlákshöfn.

Bjarg var stofnað árið 2016 af BSRB og ASÍ. Félagiðnu er ætlað að skapa tekjulægri hópum öruggt og gott húsnæði, íbúðir félagsins eru því afar mikilvæg viðbót inn á húsnæðismarkaðinn. Nánari upplýsingar og skilyrði fyrir úthlutun má finna á vef félagsins.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?