Nýjar áskoranir fram undan á vinnumarkaði

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB og stjórnarformaður NFS, setti þing NFS í Malmö í gær.

„Þrátt fyrir að norræna vinnumarkaðslíkanið hafi gengið vel stöndum við nú frammi fyrir nýjum áskorunum,“ sagði Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, þegar hún setti þing NFS, Norræna verkalýðssambandsins, í Malmö í Svíþjóð í gær.

„Yfirskrift þingsins er „Að byggja brýr“, sem vísar til samvinnu okkar þvert á landamæri,“ sagði Sonja, sem er jafnframt stjórnarformaður NFS. Hún sagði það lýsandi fyrir þá hugsun sem hefur verið ríkjandi í norrænu verkalýðshreyfingunni þar sem áherslan hafi verið á samkeppnishæfni og sjálfbærni, bæði innan Norðurlandanna og innan Evrópu allrar.

Sonja sagði þær áskoranir sem nú blasi við vera allt í senn; efnahagslegar, félagslegar og vistfræðilegar. „Umhverfisáhrif og loftslagsbreytingar hafa áhrif á lífríki okkar og þar með heilsu fólks og lífsviðurværi. Hér þurfum við að bregðast við, tryggja jöfnuð en einnig að við skiljum eftir grænan heim fyrir komandi kynslóðir. Þörfin er meiri en nokkru sinni og við þurfum að grípa til aðgerða. Unga fólkið krefst þess af okkur,“ sagði Sonja.

Norrænu stéttarfélögin hafa stóru hlutverki að gegna í framtíðarþróun vinnumarkaðarins, sagði Sonja. „Tæknibreytingar sem við stöndum frammi fyrir fela í sér tækifæri til að bæta starfsumhverfið, hækka laun og auka velferð. Norræna líkanið hefur skilað góðum árangri sem við byggjum á núna, með þeim byltingum sem þegar hafa átt sér stað á vinnumarkaði.

Lagði áherslu á lífskjarasamningana

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ávarpaði þing NFS, en hefð er fyrir því að forsætisráðherra þess lands sem fer með formennsku í NFS hverju sinni ávarpi þing sambandsins. Í ávarpi Katrínar, sem fjallað er um á vef stjórnarráðsins, lagði hún áherslu á nauðsyn þess að félagslegur og efnahagslegur stöðugleiki fari saman og fjallaði um aðgerðir ríkisstjórnarinnar í tengslum við lífskjarasamningana. Katrín ræddi einnig um kynjajafnrétti á vinnumarkaði og áhrif fjórðu iðnbyltingarinnar á starfsumhverfi.

Norræna verkalýðshreyfingin er fyrirmynd annarra hvað varðar skipulag og hugsun, sagði Luca Visentini, framkvæmdastjóri ETUC, Evrópusamtaka verkalýðshreyfingarinnar, í ræðu sinni á þingi NFS í dag. Luca sagði ógn og hættur sannarlega til staðar og nefndi þar á meðal öfgaöfl og populisma. Til að vega upp á móti þeim öflum skipti samstaðan öllu máli.

Luca kallaði eftir samræmdri löggjöf Evrópusambandsins með því að móta ramma fyrir gerð kjarasamninga sem mikil þörf væri á víða í Evrópu. Þar sagði hann norrænu ríkin og norrænu verkalýðshreyfinguna geta miðlað áfram sinni góðu reynslu við mótun samfélags þar sem sanngirni og réttlæti væru í hávegum höfð. Luca minnti á að víða í Evrópu væri umgjörð verkalýðshreyfingarinnar meðvitað haldið veikri en staðan væri augljóslega best á Norðurlöndunum.

Funda með forsætisráðherra

Þing NFS heldur áfram í dag. Þar munu formenn norrænna heildarsamtaka launafólks meðal annars funda með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?