Fulltrúar BSRB sóttu í vikunni fund norrænna heildarsamtaka opinberra starfsmanna í Stokkhólmi. Fundurinn er haldinn árlega og markmið hans er að spegla stöðu opinbers vinnumarkaðar á Norðurlöndunum, með sérstakri áherslu á starfsumhverfi og lífsgæði starfsmanna.
Áhersla á niðurskurð og hagræðingu
Hefð er fyrir því á Norðurlöndunum að verkalýðshreyfingin sé í góðu samstarfi við stjórnvöld og hefur það skapað grunninn að velferð og jöfnuði. Þess vegna er pólitíska landslagið oftast til umræðu. Á fundinum kom fram að stjórnmálamenn í öllum löndunum leggja síaukna áherslu á skilvirkni, sparnað og hagræðingu í opinbera geiranum. Slíkar áherslur bitna á almannaþjónustunni og stuðningskerfum samfélagsins og hafa neikvæð áhrif á öryggi, velferð og lífsgæði almennings.
Í Svíþjóð og Finnlandi hefur þessi þróun verið sérstaklega áberandi, þar sem ríkisstjórnir hafa gripið til aðgerða sem grafa undan réttindum launafólks. Heildarmyndin er þó svipuð í öllum löndum þegar kemur að áskorunum svo sem í heilbrigðisþjónustu og velferðarkerfinu. Flest samtökin sem sóttu fundinn lýstu yfir áhyggjum af viðvarandi niðurskurði í opinberri þjónustu og þeim hættum sem fylgja aukinni sundrungu í samfélaginu.
Heilsufar og vinnuvernd
Sérstaklega var rætt um heilsu og vinnuvernd starfsfólks í opinbera geiranum. Í öllum löndunum er veikindafjarvera mest hjá stórum kvennastéttum sem starfa innan heilbrigðis-, félags- og menntakerfisins. Þessi þróun er talin skýr vísbending um álag og vannýtt úrræði í vinnuvernd.
„Þögul stjórnsýsla“ í Svíþjóð
Gestgjafi fundarins, TCO sem eru sænsku systursamtök BSRB, kynntu nýjustu skýrslu sína um starfsumhverfi starfsfólks í stjórnsýslu. Höfundur hennar, Jon Nyhlén dósent við Stokkhólmsháskóla, varar við hægfara breytingum sem hafa átt sér stað í stjórnsýslunni, sem grafi undan fagmennsku og lýðræði.
Í skýrslunni kemur fram að aukinn þrýstingur um hraða og skilvirkni sem starffólk stjórnsýslunnar og opinberra stofnana upplifa, leiði til þess að undirbúningur fyrir ákvarðanatöku verði yfirborðskenndari. Starfsfólk óttist jafnframt að tjá sig um annmarka, sem leiðir til þess sem höfundurinn kallar „þögula stjórnsýslu“ – þ.e. að fagleg sjónarmið komist ekki að.
Krafan um skilvirkni hefur jafnframt gert ásýnd stjórnsýslu og stofnana ríkisins líkari einkafyrirtækjum, þar sem gildi á borð við óhlutdrægni, jafnræði, réttarríki og ábyrgð víkja smám saman til hliðar. Nyhlén varar við að slík þróun grafi undan lýðræðinu til lengri tíma.

Formenn heildarsamtaka opinberra starfsmanna á Norðurlöndunum:
Fv. Steffen Handal. Antti Palola, Sonja Ýr Þorbergsdóttir, Therese Svanström, Hans-Erik Skjæggerud