Samstarf gegn brotastarfsemi fest í sessi

Festa á samstarf gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði í sessi.

Starfshópur stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um undirboð og brotastarfsemi á vinnumarkaði leggur til samstarf til að sporna gegn svikastarfsemi á vinnumarkaði á borð við kennitöluflakk og mansal verði formbundið til framtíðar. BSRB fagnar tillögunum og telur mikilvægt að hrinda þeim í framkvæmd sem fyrst.

Í skýrslu starfshópsins er lagt til að lögum verði breytt til að stöðva kennitöluflakk og misnotkun á félögum með takmarkaða ábyrgð og að heimilt verði að setja forsvarsmenn fyrirtækja í tímabundið bann við þátttöku í stjórnun félaga við tilteknar aðstæður.

Ekki eru síður mikilvægar tillögur um að tryggja aðstoð og vernd fyrir fórnarlömb vinnumansals og nauðungarvinnu og að skylt verði að krefjast keðjuábyrgðar í lögum um opinber innkaup. Í tillögunum er líka bent á leiðir til að koma í veg fyrir brot á vinnumarkaði undir formerkjum starfsnáms eða sjálfboðaliðastarfsemi og bætta upplýsingagjöf til erlendra starfsmanna.

Fulltrúi BSRB í starfshópnum stóð, eins og aðrir fulltrúar í hópnum, að baki tillögunum og mun bandalagið styðja framgang þeirra.

Í hópnum sátu fulltrúar frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, dómsmálaráðuneyti, embætti ríkislögreglustjóra, félagsmálaráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, forsætisráðuneyti, Ríkiskattstjóra, Vinnueftirliti ríkisins, Vinnumálastofnun, Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, BSRB, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Samtökum atvinnulífsins.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?