Brýnt að bæta starfsaðstöðu slökkviliðsmanna vegna krabbameinshættu

Störf slökkviliðsmanna hafa frá og með deginum í dag verið skilgreind krabbameinsvaldandi af hálfu undirdeildar Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (IARC). Landssamband slökkviliðs og sjúkraflutningamanna (LSS) telur brýnt að íslensk stjórnvöld taki á málum af festu til að bæta starfsaðstöðu og beiti öllum ráðum til að draga úr hættu á starfstengdu krabbameini. Sambandið hefur sent frá sér yfirlýsingu um málið.

Magnús Smári Smárason, formaður LSS, segir mikilvægt að löggjöf skilgreini krabbamein tengd starfi slökkviliðsmanna sem atvinnusjúkdóm og tryggi réttindi þeirra sem hafa greinst eða munu greinast með starfstengd krabbamein. Nauðsynlegt sé að ráðast í greiningu og gerð aðgerðaráætlunar á breiðum grundvelli sem hefur það markmið að lágmarka líkur á því að slökkviliðsmenn verði útsettir fyrir krabbameinsvaldandi efnum. Þá þarf að rýna í starfsaðstæður og jafnvel endurhannanir á slökkviliðsstöðvum til að hægt sé að meðhöndla menguð tæki og búnað með öruggum hætti, aðstaða til einstaklingsþrifa þarf að vera til staðar og rýna þarf í starfsreglur og vinnulag við slökkvistörf.

“Það er óhætt að segja að störf slökkviliðsmanna séu hættuleg, hvort sem þeir sinna fullu starfi eða slökkviliðsstörfum samhliða annarri vinnu eins og algengt er á smærri sveitarfélögum. Ofan á það bætist hættan á starfstengdum krabbameinum og það er skylda stjórnvalda að bregðast við og vernda þessa stétt rétt eins og hún verndar okkur.” segir Magnús Smári, formaður LSS.

BSRB tekur undir þessar kröfur aðildarfélags síns, LSS og hvetur stjórnvöld til að tryggja öryggi þessa mikilvæga starfsfólks í almannaþjónustu - án þeirra getur samfélagið ekki verið.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?