Spennandi nám fyrir trúnaðarmenn í vor

Farið er yfir fjölbreytt námsefni í námi trúnaðarmanna.

Opnað hefur verið fyrir skráningu í nám fyrir trúnaðarmenn aðildarfélaga BSRB hjá Félagsmálaskóla alþýðu. Næsta námskeið fer fram dagana 14. til 15. janúar 2019.

Námið var stokkað upp í byrjun árs og námið gert hnitmiðaðra og verður starfað áfram samkvæmt nýju skipulagi á nýju ári. Námið í heild sinni er 96 kennslustundir og hefur verið stytt umtalsvert því það var áður 142 kennslustundir. Það var gert með því að fara vandlega yfir námsefnið og ábendingar frá trúnaðarmönnum sem setið hafa námskeiðin til að taka út endurtekningar og gera námið allt hnitmiðaðra.

Nýja námsskráin skiptist í nokkra hluta. Hver hluti er 16 kennslustundir og er kennt á tveimur heilum dögum, í stað þriggja daga áður. Fyrst verða í boði fimmti og sjötti hluti námsins í boði en í mars byrja ný námskeið fyrir trúnaðarmenn sem ekki hafa setið fyrri námskeið.

Á vorönn 2019 eru eftirfarandi námskeið í boði:

 

Fimmti hluti – 14. og 15. janúar

Í fimmta hluta trúnaðarmannanámsins verður meðal annars kynning á VIRK - starfsendurhæfingu og á Vinnueftirlitinu. Farið verður í hvernig sjálfstraust einstaklinga hefur áhrif á samskipti og leiðir til að efla sjálfstraust.

  • Kynning á Virk-starfsendurhæfingarsjóðnum og starfi ráðgjafa þess.
  • Kynning á Vinnueftirlitinu, skyldum atvinnurekenda í vinnuvernd og trúnaðarmanna.
  • Farið er í hvernig sjálfstraust einstaklinga hefur áhrif á samskipti.
  • Nemendur kynnast áhrifum skorts á sjálfstraust og ýmsar birtingamyndir þess.
  • Nemendur kynnast leiðum til að efla sjálfstraustið og hvaða aðstæður geta haft áhrif á minnkandi sjálfstraust.

 

Sjötti hluti – 11. til 12. febrúar

Í sjötta hluta trúnaðarmannanámsins er farið yfir helstu hugtök í samningatækni. Lögð er áhersla á eðli og markmið samninga, grunnatriði samningagerðar og hvernig hún er notuð í daglegu lífi við úrlausn mála sem koma inn á borð trúnaðarmanna.

  • Nemendur kynnast helstu hugtökum í samningtækni.
  • Lögð er áhersla á eðli og markmið samninga, grunnatriði samningagerðar, hvernig hún er notuð í daglegu lífi við úrlausn mála sem koma inn á borð trúnaðarmanna.
  • Megináhersla er á undirbúning framsögu og umræður á vinnustaða- og félagsfundum, fundarsköp og frágang fundagerða.
  • Einnig er fjallað um einkenni og tilgang ýmissa ræðuforma. Lögð er áhersla á að skilgreina helstu einkenni rökræðu, mikilvægi þess að hlusta á skoðanir annarra.

 

Fyrsti hluti – 11. til 12. mars

Í fyrsta hluta trúnaðarmannanámsins er meðal annars farið ítarlega í hlutverk stéttarfélaga, sambanda og heildarsamtaka á vinnumarkaði. Einnig er hlutverk trúnaðarmannsins rætt og hvernig hann eigi að vinna með umkvörtunarefni.

  • Hvert er hlutverk stéttarfélaga, sambanda og heildarsamtaka á vinnumarkaði?
  • Hvernig starfa stéttarfélögin, stjórnir þeirra og hvert er hlutverk félagsmanna?
  • Hvert er hlutverk trúnaðarmanns á vinnustað, hvað á hann að gera og hvað á hann ekki að gera?
  • Hvert er hlutverk trúnaðarmanna samkvæmt lögum og kjarasamningum?
  • Hvar getur trúnaðarmaður aflað sér upplýsinga um túlkanir kjarasamninga og önnur mál sem koma inn á hans borð?
  • Hvernig eiga trúnaðarmenn að taka á móti umkvörtunum og vinna úr þeim?

 

Annar hluti – 8. til 9. apríl

Í öðrum hluta trúnaðarmannanámsins er lögð megináhersla á hvernig stuðla eigi að góðum samskiptum á vinnustað. Skoðuð eru mismunandi form framkomu og áhrif hennar á okkur og aðra. Einnig er rætt um einelti og hvernig bregðast eigi við því.

  • Lögð er megináhersla á mikilvægi góðra samskipta á vinnustað, hvernig megi stuðla að góðum samskiptum.
  • Skoðuð er mismunandi framkoma, áhrif hennar á okkur og aðra.
  • Nemendur kynnast afleiðingum langvarandi slæmra samskipta, eineltis á vinnustað, hvernig bregðast eigi við og ábyrgð gerenda og atvinnurekenda.
  • Nemendur kynnast starfsemi stéttarfélagsins, réttindum félagsmanna.
  • Nemendur læra á innihald og uppbyggingu kjarasamninga og helstu túlkun á þeim.
  • Nemendur kynnast sjóðum félagsins og réttindum félagsmanna í þeim.

 

Skráning í gegnum vefinn

Áhugasamir nemendur geta skráð sig á námskeiðin í gegnum vef Félagsmálaskóla alþýðu. Stofna þarf aðgang með íslykli eða lykilorði til að fá aðgang að námsgögnum og komast í samband við leiðbeinendur.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?